Þrír leikmenn danska handknattleiksliðsins Álaborgar hafa greinst með kórónuveiruna. Þetta eru þeir Simon Gade, sem greindist á þriðjudagsmorgun, og þeir Magnus Saugstrup og Lukas Sandell, sem greindust í gærkvöldi.
Af þessum sökum hefur viðureign Álaborgar og Celje frá Slóveníu í Meistaradeild Evrópu, sem átti að fara fram í kvöld í Álaborg, verið felld niður. Frá þessu er greint á Handbolta.is.
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Danmerkurmeistara Álaborgar og sagði í samtali við Handbolta.is í gær að hann vonaðist til þess að greining Gade væri einangrað tilfelli.
Nú er komið í ljós að svo er ekki og því var leikur kvöldsins felldur niður, sem þýðir að Álaborg endar í fjórða sæti B-riðils Meistaradeildarinnar á eftir Barcelona, Veszprém og Kiel.