Allt árið undir

Aron Kristjánsson í Vestmannaeyjum í kvöld.
Aron Kristjánsson í Vestmannaeyjum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var mjög ánægður með sigur sinna manna í Vestmannaeyjum í kvöld í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í þrettándu umferð deildarinnar.

Hans menn voru ekki í neinum vandræðum með að landa sjö marka sigri, 19:26, og fljúga eflaust sáttir aftur á fastalandið á morgun.

„Ég er mjög ánægður með leikinn, spiluðum góða vörn og náðum að loka á lykilþætti í leik ÍBV, síðan varði Björgvin vel. Sóknarlega fannst mér við gera mikið af mistökum í byrjun leiks og mikið af tæknifeilum, heilt yfir vorum við þó skynsamir sóknarlega og tókst okkur vel að leysa þær varnir sem ÍBV kom með.“

Leikurinn hófst skemmtilega og var mjög jafn framan af, á sautjándu mínútu skildi þó leiðir og gestirnir flugu í raun fram úr Eyjamönnum.

„Mér fannst við klaufalegir í byrjun, með góða vörn og markvörslu eigum við að nýta okkur það betur með hraðaupphlaupum. Við vorum að kasta boltanum auðveldlega frá okkur og misnota góð færi, það komst síðan betri taktur í okkar leik og við hægt og rólega sigum fram úr,“ sagði Aron sem hafði fulla ástæðu til þess að vera ánægður með sína menn í kvöld.

Skyttur Eyjamanna voru meiddar og ekki með í dag en Haukar nýttu sér það mjög vel, þeir lokuðu frekar á línuspil Eyjamanna sem og hornamenn liðsins.

„Við reyndum að loka á það sem þeir hafa verið að spila mikið á undanfarið, það reyndist vel í dag. ÍBV vantar nokkra leikmenn en okkur vantar leikmenn líka og þetta er bara staðan.“

Haukar hafa verið góðir í deildinni og eru á toppnum, þeir hljóta að vera ánægðir með hvernig deildin hefur farið af stað.

„Við erum auðvitað ánægðir með að vera í fyrsta sæti, spilið hefur verið í lagi í flestum leikjum. Það hefur þó dottið niður á milli, við fáum smá öndunarrými núna og síðan kemur þéttur pakki aftur, þá er eins gott að vera á tánum.“

Haukar eru með bestu vörnina í deildinni samkvæmt tölfræðinni, hvers vegna að mati Arons?

„Við höldum góðum þéttleika og erum taktískt góðir. Markvarslan hefur á köflum verið góð hjá okkur en datt aðeins niður eftir áramót. Í síðustu tveimur leikjum höfum við sýnt gæði og stöðugleika þar.“

Haukar hafa verið duglegir á þessari öld að sækja deildarmeistaratitla og gert það að leik sínum ár eftir ár, þeir virðast vera nokkuð líklegir í þann titil á þessari leiktíð og er Aron ánægður með það.

„Það er spilað um deildarmeistaratitilinn og við viljum standa okkur vel í deildarkeppninni, allt árið er undir þar. Það er stór titill og í mörgum löndum er það meistaratitillinn, það segir mikið um vinnuna sem unnin er yfir árið. Bikarinn er alltaf skemmtilegur líka og sá stóri seint í vor, ég held að það séu mörg lið sem eiga ekki möguleika á deildarmeistaratitlinum sem stefna á að vera með alla klára þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert