„Hefðum bara átt að klára dæmið“

Jónatan Magnússon fer yfir málin með lærisveinum sínum á Akureyri …
Jónatan Magnússon fer yfir málin með lærisveinum sínum á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jónatan Magnússon hefur upplifað marga spennuleiki með KA í vetur og kvöldið í kvöld var engin undantekning þegar KA og Selfoss gerðu 24:24-jafntefli í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í KA heimilinu á Akureyri í kvöld.

KA var undir stóran hluta leiksins en síðasta kortérið var jafnt á öllum tölum. KA komst í 24:23 þegar hálf mínúta var eftir en Selfoss jafnaði í lokasókn sinni. Jónatan var því nokkuð svekktur að hafa ekki landað sigri. 

„Við vorum í mjög góðum séns á að vinna leikinn, þurftum bara að standa eina vörn í lokin. Ég er bara svekktur með að hafa ekki náð því og þetta situr dálítið í mér. Það voru sveiflur í þessu og við vorum að elta þá í 40 mínútur. Selfoss tók fram úr í fyrri og við lentum í smá veseni. Markvörður þeirra var að verja vel og við fórum illa með mörg góð færi, sérstaklega í fyrri hálfleik. Kannski er stig ásættanlegt. Við erum að safna stigum, hefðum getað fengið tvö en líka ekkert. Það hefði samt verið rosalega sterkt að taka sigur í dag. Við erum á heimavelli og við viljum vinna heimaleikina. Þetta svíður núna en þegar talið er upp úr hattinum í lokin verður þetta stig kannski mjög mikilvægt.“ 

Taktíkin hjá ykkur í dag virtist vera að stöðva línuspil Selfyssinga. Þeir eru með Atla Ævar Ingólfsson á línunni, sem er illviðráðanlegur ef hann fær boltann. Þetta tókst en á meðan fengu mennirnir fyrir utan að leika lausum hala og Selfoss skoraði 19 mörk með langskotum á miðja vörn KA. 

„Eðlilega var það okkar upplegg. Það gekk vel upp og hann fékk ekki boltann í leiknum nema einu sinni. Við vildum frekar fá þessi skot heldur en línusendingar. Við erum með markmann sem er góður í að verja svona skot og hann fór að verja í seinni hálfleik. Þetta gekk nánast upp hjá okkur og varnarlega fannst mér ganga ágætlega. Ef við hefðum nýtt dauðafærin betur þá hefðum við ekki verið í þessu veseni. Í staðinn vorum við að elta og þurftum að hafa mikið fyrir því að hanga í þeim. Svo sýnum við enn og aftur karakter og komumst yfir í nokkur skipti og áhorfendur hjálpuðu þar klárlega til. Við höfðum alltaf trú á sigri. Fáum mark í lokasókninni og hefðum bara átt að klára dæmið. Stundum er það þannig að það tekst ekki allt sem maður ætlar sér.“ 

Nú kemur stutt hlé á deildarkeppninni. Eruð þið ekki fegnir að fá smá hvíld og andrými til að safna kröftum í næstu törn? 

„Það er alveg klárt en það eru ekki allir að fá þetta andrými. Við erum með tvo leikmenn sem verða á ferð og flugi með færeyska landsliðinu. Við erum ekki með nein svöðusár á okkur en það verður gott að breyta um takt og safna kröftum. Okkur finnst gaman að spila en ég held að allir geti hlakkað til að fá að æfa aðeins núna. Í mínu liði hafa menn kannski mest saknað þess að komast ekki í smá fótbolta á æfingum. Ef við náum að setja hann inn annað slagið þá mun hýrna yfir mönnum. 

Ert þú þá með í fótboltanum? 

„Það er nú voðalega lítið, Sverre er miklu spenntari fyrir honum,“ sagði Jonni Magg að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert