Vængir Júpíters ekki með gilt keppnisleyfi?

Í hlaðvarpsþættinum Handboltinn okkar í gær var greint frá því að kennitala handknattleiksliðs Vængja Júpíters, sem leikur í 1. deildinni, Grill 66-deild karla, væri ekki gild og því væri liðið ekki með keppnisleyfi í deildinni.

Þáttastjórnendurnir Jóhannes Lange og Gestur Guðrúnarson fengu Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóra HSÍ, í þáttinn til þess að ræða málið. Róbert sagði sambandið vera að skoða það ofan í kjölinn og taldi líkur á því að einhver mynd kæmist á málið í dag.

Í þættinum kom fram að vegna yfirvofandi kæru Vængja Júpíters í garð Harðar eftir síðari leik liðanna í deildinni á dögunum, sem Hörður vann, hafi forsvarsmenn Harðar farið í það að afla sér upplýsinga um félagið. Við þá upplýsingaöflun hafi komið í ljós að kennitalan sem Vængir Júpíters hafi gefið upp á skrifstofu HSÍ hefði verið afskráð þann 12. mars árið 2020.

Það myndi þýða að handknattleikslið Vængja Júpíters sé ekki aðili að HSÍ og þar með ekki með gilt keppnisleyfi í Grill 66-deildinni.

Hörður hefur lagt fram kæru til HSÍ vegna málsins og væntir þess að Vængir Júpíters verði dæmdir úr keppni og að Hörður og Fram U fái dæmda sigra úr tapleikjum sínum gegn Vængjum Júpíters, sem eru einu tveir sigrar Vængja á tímabilinu til þessa.

Þáttinn í heild sinni er hægt að hlusta á hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert