„Hef ekki lent í þessu fyrr“

Annika Friðheim Petersen lék vel í dag.
Annika Friðheim Petersen lék vel í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Maður leiksins í jafntefli KA/Þórs og Hauka í Olís-deild kvenna í handbolta í dag var Færeyingurinn í marki Hauka, Annika Fridheim Petersen. Hún byrjaði leikinn brösuglega, varði ekki skot og kastaði sér einu sinni á eftir boltanum þannig að höfuð hennar skall á markstönginni. Eitthvað vankaðist hún við það, tók sér hvíld á bekknum en kom svo tvíefld til leiks. Hún varði sextán skot eftir höfuðhöggið og gat verið nokkuð sátt með sinn leik. 

Annika er 21 árs og á sínu fyrsta tímabili með Haukum. Hún var drifin í viðtal skömmu eftir leik. 

„Við áttum fínan leik í dag og ég vil hrósa mínu liði fyrir að gefast aldrei upp. Við vorum stóran hluta leiksins 2-3 mörkum undir en börðumst fyrir þessu stigi og verðum eflaust sáttar með það á morgun þótt við séum pínu fúlar núna að hafa ekki náð sigurmarkinu í lokin. Ég hefði líka getað gert betur í jöfnunarmarkinu þeirra en þetta var samt sterkt stig. Við erum að spila við efsta liðið á þeirra heimavelli, ekki gleyma því en við mættum alveg pressulausar og óhræddar. Kannski reiknaði enginn með að við kæmum til að taka stig eða tvö en við höfðum alltaf trú á því.“ 

Þú lentir í því í fyrri hálfleik að keyra á stöngina og fá höfuðhögg. Fram að því varstu ekki búin að verja skot en eftir að þú komst aftur inn á fórstu að verja mjög vel. 

„Ég hef heyrt það frá mörgum markvörðum að svona högg eða skot í höfuðið komi mönnum oft í stuð en ég hef ekki lent í þessu fyrr. Vörnin var líka þétt fyrir framan mig og það hjálpaði heilmikið,“ sagði brosmild Annika að skilnaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert