Jafntefli í spennuleik á Akureyri 

Anna Þyrí Halldórsdóttir sækir að marki Hauka í dag.
Anna Þyrí Halldórsdóttir sækir að marki Hauka í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Topplið KA/Þórs í Olís-deild kvenna í handbolta fékk Hauka í heimsókn til sín í dag. Fyrir leik var KA/Þór með sextán stig en Haukar með níu í sjötta sæti deildarinnar. Fór svo að lokum að liðin skildu jöfn 27:27 eftir æsispennandi lokamínútur. 

Heimakonur voru sterkari á upphafskaflanum og náðu strax þriggja marka forskoti. Hélst það svo fram á lokakafla fyrri hálfleiks en Haukar náðu að jafna fyrir hálfleik 13:13. Annika Fridheim Petersen fór að verja eins og berserkur í marki Haukanna. Hún hafði ekki varið skot um miðjan hálfleikinn en var komin með sjö vörslur í hálfleik. Haukavörnin þéttist líka og KA/Þór tapaði nokkrum boltum. Hinum megin á vellinum gekk Haukum ekkert vel að skora og þar var Sunna Guðrún Pétursdóttir í stuði í marki KA/Þórs. Fimm mínútum fyrir hálfleik var staðan 12:9 fyrir KA/Þór. Mörg mistök hjá heimakonum gáfu Haukunum mörk á silfurfati og Hafnfirðingar jöfnuðu í 13:13 á lokasekúndum fyrri hálfleiks. 

Jafnt var í leiknum upp í 16:16. KA/Þór nýtti sér hörmungarkafla Haukakvenna og kom sér í 19:16. Haukarnir spýttu í lófana og komu til baka á methraða. Haukar komust yfir 22:21 og svo var bara jafnt á öllum tölum upp í 26:26. Sara Odden kom Haukum í 27:26 þegar rúm mínúta var eftir. Manni færri náðu KA/Þór konur að jafna leikinn og en jöfnunarmarkið skoraði línumaðurinn Ásdís Guðmundsdóttir úr vinstra horninu. Í lokasókn Hauka átti Hekla Rún Ámundadóttir gott skot sem Matea Lonac rétt snerti og boltinn small í stönginni. Lyktaði leiknum því með sanngjörnu jafntefli 27:27. 

Þrátt fyrir að KA/Þór hafi verið yfir stærstan hluta leiksins þá geta Akureyringar þakkað fyrir að hafa náð stiginu miðað við hvernig lokasóknirnar spiluðust. Vörn heimakvenna var langt frá sínu besta í leiknum og markvarslan ekki góð. Rut Jónsdóttir dró vagn KA/Þórs í leiknum. Hún skoraði 11 mörk. Hulda Bryndís Tryggvadóttir var sterk en aðrir leikmenn nokkuð frá sínu besta.  

Haukakonur voru ekki að spila eins og þær best geta. Færeyski markvörðurinn Annika Fridheim Petersen var þeirra langbesti maður. Hún varði alls 16 skot í leiknum. Haukavörnin þéttist mjög þegar leið á leikinn og getur verið sátt við sitt. Sara Odden og Birta Lind Jóhannsdóttir skiluðu svo sínu í sókninni. Hin bráðunga Elín Klara Þorkelsdóttir kom líka skemmtilega inn í leikinn og stóð sig virkilega vel.  

Lið KA/Þórs er nú eitt í toppsæti deildarinnar þar sem Fram tapaði fyrir ÍBV. Haukar komu sér upp að hlið Stjörnunnar í 5.-6. sætið.  

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

KA/Þór 27:27 Haukar opna loka
60. mín. Ásdís Guðmundsdóttir (KA/Þór) skoraði mark Úr vinstra horninu.
mbl.is