„Þessi úrslit eru fyrir Íslendinga mesti sigur sem íslenzkt flokkalið hefur hlotið. Og það sem meira er um vert, Ísland hefur nú unnið sér það álit í þessari grein, að enginn efast um að það eigi þetta sæti skilið og allir skoða íslenzka liðið fyllilega í flokki með beztu liðum heims í þessari grein.“
Þannig komst Morgunblaðið að orði eftir að íslenska karlalandsliðið hafði óvænt hafnað í sjötta sæti á HM í handbolta árið 1961. Árangur sem ekki var jafnaður fyrr en 1986 og ekki bættur fyrr en í Japan 1998, 37 árum síðar.
Spurður að því nú hvort menn hafi gert sér einhverjar vonir um árangur á mótinu svarar Gunnlaugur Hjálmarsson, einn landsliðsmannanna: „Nei, alls ekki. Þetta voru meira og minna hermenn í hinum liðunum, mjög vel á sig komnir. Atvinnumenn þess tíma. Við vorum eins og sveitamenn; renndum svo að segja blint í sjóinn. En eftirvæntingin var mikil.“
Ekki blés byrlega í upphafi, íslenska liðið steinlá fyrir Dönum, 24:13. Danir kveinkuðu sér undan grófum leik Íslendinga. Berlingske Tidende sagði leikinn hafa minnt mest á slagsmál. Ennfremur sagði (í endursögn Morgunblaðsins): „Við urðum fyrir vonbrigðum með íslenzka liðið, sérstaklega með tilliti til framkomu þess á leikvelli, þeir urðu fljótt reiðir og um leið óvinsælir meðal áhorfenda, sérstaklega var þetta áberandi hjá einum sóknarleikmanni Íslendinga – og ef hann hefði slegið jafn oft og hann steytti hnefana, hefðu Danirnir sjálfsagt allir legið í valnum að leikslokum.“
Gunnlaugur staðfestir að leikurinn hafi verið harður. „Já, já, við tókum vel á þeim. Við vorum með allt annan stíl en Danir; spiluðum auðvitað ekki þennan evrópska handbolta. Danir voru allt annað en sáttir við okkur.“
Síðan kom óvæntur sigur á Sviss sem fleytti Íslendingum áfram í milliriðil. Þar byrjaði liðið á þvi að gera jafntefli við silfurliðið frá næsta HM á undan, Tékka. „En það var er síðari hálfleikur hófst, sem íslenzka liðið kom á óvart. Baráttuvilji þess, ákafi og keppnisskap heitt, sameinaði þá á örlagastund og smám saman gekk á forskotið sem Tékkarnir höfðu myndað sér og er flautað var af hafði Gunnlaugur Hjálmarsson jafnað 15:15 og Ísland hafði hlotið stig í lokakeppninni móti þeim sem sízt var vænzt að fá stig frá,“ sagði Morgunblaðið.
Íslendingar þekktu ágætlega til leikmanna tékkneska liðsins enda höfðu þarlend lið leikið á Íslandi. „Þetta voru hálfgerðir kunningjar okkar og við fengum ekki fallegan svip frá þeim eftir jafnteflið,“ segir Gunnlaugur.
Ísland tapaði fyrir Svíum en vann öruggan sigur á Frökkum. Það þýddi að Ísland lék um fimmta sætið á HM í Vestur-Þýsklandi – gegn aldavinum sínum Dönum. Liðið hafði vaxið við hverja raun og úr varð hörkuleikur sem Danir unnu á endanum með einu marki, 14:13. „Það tap var mjög sárt, ekki síst sigurmarkið sem fór í stöng og þaðan í Hjalta, sem hafði varið mjög vel, og í markið. Lak inn,“ rifjar Gunnlaugur upp.
Í umsögn Morgunblaðsins kom eftirfarandi fram: „Í skeyti þýzku fréttastofunnar er það tekið fram að sigur Dana hafi hlotnazt þeim fyrir mikla heppni. Leikur Dana var lélegur og án nokkurs sóknarþunga. Á köflum léku Íslendingar aftur á móti mjög vel og fjölbreytilega. En hinn sænski dómari kom þeim mjög úr jafnvægi með dómum sínum. Flestir áhorfenda tók undir óánægju Íslendinga með ópum.“
Gunnlaugur varð þriðji markahæstur á mótinu með 22 mörk og var valinn í heimsliðið eftir mótið. Spurður hvort það hafi ekki verið mikill heiður svarar hann: „Til að byrja með gerði ég mér enga grein fyrir mínum árangri. Við vorum lið og ég hafði engar persónulegar ambisjónir á þessu móti. Það var ekki fyrr en löngu seinna að ég áttaði mig á því að þetta hefði verið eitthvað merkilegt. En auðvitað er maður stoltur af því að hafa verið valinn í heimsliðið. Það segir sig sjálft.“
Til stóð að heimsliðið mætti Frökkum eftir mótið en af þeim leik varð ekki, að því er Gunnlaug minnir fyrir þær sakir að menn gátu ekki komið sér saman um skiptingu hagnaðarins. „Það kitlaði mig svo sem ekki þá en seinna fór ég að velta fyrir mér að gaman hefði verið að spila með þessu liði.“
Ísland tók fyrst þátt í HM í handbolta árið 1958 og var Gunnlaugur í liðinu þá, á tuttugasta aldursári. Viðunandi árangur náðist á mótinu, tíunda sæti af 16 liðum, og menn staðráðnir í að byggja á því.
Aðstaðan var þó ekki upp á marga fiska og Gunnlaugur minnist æfinga í KR-heimilinu, þar sem leikið var þvert á eitt mark. Það þætti líklega ekki boðlegt í dag. Árið 1960 hljóp hins vegar á snærið hjá landsliðinu þegar því bauðst að æfa í íþróttahúsi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli sem bjó að handboltavelli í fullri stærð. Gunnlaugur segir það hafa verið fyrir milligöngu eins landsliðsmannanna, Karls Benediktssonar, sem vann hjá verktaka á Vellinum. „Það var til mikilla bóta enda húsið virkilega flott,“ segir Gunnlaugur en það gera sér líklega ekki allir grein fyrir þætti Bandaríkjamanna, þeirrar miklu handboltaþjóðar, eða þannig, í árangrinum á HM 1961.
Þess má geta að Laugardalshöllin var ekki vígð fyrr en í desember 1965. „Hún breytti öllu,“ segir Gunnlaugur, „og óhætt að tala um byggingu Laugardalshallarinnar sem mesta afrekið í sögu íslensks handknattleiks. Hún var búin að standa fokheld í nokkur ár þegar við tókum nokkrir af skarið; ég, Karl Benediktsson, Birgir Björnsson FH-ingur og Sigurður Jónsson, formaður HSÍ. Hefðum við ekki gert það stæði hún líklega ennþá fokheld.“
Hann glottir.
Menn lögðu mikið á sig til að sækja æfingarnar á Vellinum. „Rútan fór frá BSÍ klukkan korter yfir sjö að kvöldi og maður mátti hafa sig allan við til að ná henni enda var ég ekki búinn að vinna fyrr en korter í sjö,“ rifjar Gunnlaugur upp en hann starfaði alla tíð sem trésmiður. „Við vorum yfirleitt ekki komnir til baka fyrr en um miðnætti og þá átti ég eftir að ganga heim í Laugarneshverfið. Síðan þurfti maður að vakna eldsnemma um morguninn í vinnu.“
– Það hefur ekki verið tími fyrir margt annað á þessum árum?
„Ekki aldeilis. Ég er stundum spurður hvers vegna ég eignaðist bara tvö börn. Svarið er augljóst: Ég hafði ekki tíma til þess!“
Hann hlær.
Nánar er rætt við Gunnlaug í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og HM 1961 rifjað upp í ítarlegra máli.