Íslenskar konur láta ekkert stoppa sig

„Það hefur gengið mjög vel í gegnum tíðina að púsla þessu öllu saman,“ sagði Ágústa Edda Björnsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í handknattleik og núverandi Íslandsmeistari í hjólreiðum, um það hvernig henni hefur tekist til með að vera afrekskona í íþróttum, samhliða því að vera þriggja barna móðir, í Dagmálum, nýjum frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Ágústa var sextán ára gömul þegar hún byrjaði að æfa handbolta en eftir afar farsælan handknattleiksferil ákvað hún að byrja að stunda hjólreiðar og er í dag fremsta hjólreiðakona landsins í götuhjólreiðum.

„Ég var alltaf með mikinn stuðning á bak við mig og fyrrverandi maðurinn minn sem dæmi studdi alltaf mjög þétt við bakið á mér og tók vaktina,“ sagði Ágústa.

„Valur gerði líka vel í því að bjóða upp á barnapössun og maður gat þá tekið börnin með á æfingar. Allir strákarnir mínir alast aðeins upp í Valsheimilinu að einhverju leyti.

Íþróttir hafa alla tíð verið mjög stór hluti af mínu lífi og mér fannst börn ekki eiga að þurfa að stoppa það,“ sagði Ágústa meðal annars.

Viðtalið við Ágústu Eddu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert