Alexander auðveldlega í átta liða úrslit

Alexander Petersson á góðu gengi að fagna með Flensburg.
Alexander Petersson á góðu gengi að fagna með Flensburg. AFP

Alexander Petersson og samherjar hans í þýska toppliðinu Flensburg eru komnir í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í handknattleik án þess að þurfa að spila.

Flensburg átti að mæta Zagreb frá Króatíu í sextán liða úrslitum en fyrri leiknum sem fram átti að fara í Zagreb í síðustu viku var frestað vegna kórónuveirusmita í röðum Króatanna.

Þá voru báðir leikirnir settir á heimavöll Flensburg og áttu að fara þar fram á morgun og fimmtudag. Nú hefur þeim verið aflýst þar sem Zagreb getur enn ekki stillt upp liði vegna smitanna.

Fyrir vikið hefur Flensburg verið úrskurðaður sigur í báðum leikjum og er komið í átta liða úrslit þar sem andstæðingurinn verður annaðhvort Porto eða Aalborg.

Þar með eru tvö lið komin áfram en Barcelona vann Elverum frá Noregi léttilega í tveimur heimaleikjum. Ekki var hægt að spila í Noregi vegna sóttvarnareglna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert