Finnst danska deildin vera gríðarlega sterk

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður Íslands.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður Íslands. Ljósmynd/Robert Spasovski

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður í handknattleik, segist taka ákvörðun á næstunni um hvort hún leiki áfram með Vendsyssel eða reyni fyrir sér annars staðar. Liðið féll úr dönsku úrvalsdeildinni þótt Elín hafi staðið fyrir sínu í markinu eins og tölurnar hafa sýnt í vetur. Elín Jóna ætti að vera orðin vel kynnt í danska handknattleiknum því hún var valin leikmaður ársins hjá Vendsyssel 2019 og 2020 en síðara árið komst liðið upp úr 1. deild og í þá efstu.

„Þetta er allt í vinnslu. Ég er að gera upp við mig hvort ég vilji vera áfram eða hvort ég vilji skoða aðra möguleika. Það ætti að skýrast fljótlega hvort ég verði áfram hjá Vendsyssel eða ekki,“ sagði Elín Jóna þegar Morgunblaðið tók hana tali á landsliðsæfingu í Fossvoginum. Spurð um hvort til skoðunar sé að leika annars staðar en í Danmörku er ekki annað að heyra á Elínu en að hún sé með Danmörku í forgangi. „Mér finnst danska deildin vera gríðarlega sterk. Ef ég á möguleika á að spila þar, og get haldið áfram að bæta mig, þá væri gott að vera þar eins lengi og hægt er. Í Danmörku spilar maður á móti leikmönnum sem eru í Evrópukeppnunum og spila á stórmótum með sínum landsliðum,“ sagði Elín en Vendsyssel féll úr úrvalsdeildinni og leikur því í 1. deild á ný á næsta tímabili.

„Það gekk upp og niður á tímabilinu. Skrefið frá 1. deild upp í úrvalsdeild í Danmörku er afskaplega stórt. Fyrir mína parta gekk ágætlega en árangur liðsins hélst ekki í hendur við það. Tímabilið var mjög erfitt fyrir okkur bæði innan vallar og utan.“

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »