Stjörnumenn styrkja sig

Þórður Tandri Ágústsson í leik með Þór Akureyri í síðasta …
Þórður Tandri Ágústsson í leik með Þór Akureyri í síðasta mánuði. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Línumaðurinn Þórður Tandri Ágústsson mun ganga til liðs við Stjörnuna að loknu yfirstandandi keppnistímabili. Kemur hann frá uppeldisfélagi sínu Þór á Akureyri.

Tilkynnt var um þetta á Facebook-síðu handknattleiksdeildar Stjörnunnar í morgun.

Þórður Tandri er 21 árs gamall og hefur skorað 32 mörk í 12 leikjum fyrir Þór Akureyri í Olísdeildinni á tímabilinu.

Auk þess að vera línumaður er Þórður Tandri einnig sterkur varnarmaður. Í tilkynningu Stjörnunnar vegna félagaskiptanna segir meðal annars: „Þórður er grjótharður og getur spilað bæði vörn og sókn. Hann mun vera góð viðbót við Stjörnuliðið og verður gaman að fylgjast með Þórði í Garðabænum næstu árin.“

mbl.is