HM blasir við tveimur liðum eftir stórsigra

Lið Svartfjallalands fagnaði á dögunum sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó …
Lið Svartfjallalands fagnaði á dögunum sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó og það stendur ágætlega að vígi með að komast á HM á Spáni. AFP

Ljóst er að Ungverjaland og Rússland eru á leiðinni á heimsmeistaramót kvenna í handknattleik á Spáni í desember eftir stórsigra í fyrri umspilsleikjum sínum í dag.

Ungverjar unnu yfirburðasigur á Ítölum á heimavelli, 46:19, og þar með er ljóst að seinni leikurinn sem fram fer á sunnudaginn er algjört formsatriði.

Rússar sóttu Tyrki heim og unnu stórsigur, 35:23, þannig að sáralitlar líkur eru á að sá munur verði unninn upp í seinni leiknum.

Svartfjallaland stendur vel að vígi eftir heimasigur gegn Hvíta-Rússlandi, 29:23, en allt er í járnum hjá Austurríki og Póllandi eftir jafntefli þeirra, 29:29, í Austurríki.

Sex önnur einvígi eru í umspilinu og þar á meðal fer fyrri viðureign Slóveníu og Íslands fram í Ljubljana á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert