„Er mjög fegin að við skyldum fá undanþágu“

Birna Berg Haraldsdóttir í leik Íslands og Norður-Makedóníu í síðasta …
Birna Berg Haraldsdóttir í leik Íslands og Norður-Makedóníu í síðasta mánuði. Ljósmynd/Robert Spasovski

Kvennalandsliðið í handknattleik mætir Slóveníu í Ljubljana í dag. Er það fyrri leikur liðanna í umspili um laust sæti í lokakeppni HM sem fram fer á Spáni í desember. Örvhenta skyttan Birna Berg Haraldsdóttir er hóflega bjartsýn fyrir leikina gegn Slóveníu.

Birna segir lið Slóveníu vera gott og hafa bætt sig mjög á undanförnum árum. Á hinn bóginn hefði Ísland getað lent á móti enn erfiðari andstæðingum í umspilinu að hennar mati og niðurstaðan sé því ágæt.

„Þetta er mjög spennandi enda er orðið langt síðan við fórum síðast á HM. Möguleikarnir eru bara góðir því við hefðum getað dregist á móti andstæðingum sem eru miklu betri en við á þessum tímapunkti. Við eigum alla vega möguleika gegn Slóveníu en það verður mikilvægt að komast vel frá fyrri leiknum.

Við viljum ekki vera í slæmri stöðu fyrir síðari leikinn hér heima. Við höfum æft vel og erum vel undirbúnar. Ég er mjög spennt en get viðurkennt að ég er orðin svolítið óþreyjufull að bíða,“ sagði Birna en landsliðið hefur fengið töluverðan tíma til að æfa fyrir leikina og kom þá nánast í beinu framhaldi af leikjunum þremur í forkeppni HM sem spilaðir voru í Norður-Makedóníu.

Viðtalið í heild sinni og umfjöllun um leikinn er í Morgunblaðinu í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert