Gamla ljósmyndin: Fyrst til að skora á stórmótum

Ljósmynd/Hilmar Þór

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Ísland mætir í dag Slóveníu í fyrri leik liðanna í umspili um laust sæti í lokakeppni HM kvenna í handknattleik sem fram fer á Spáni í desember. Í dag verður leikið í Slóveníu og fylgst með gangi mála hér á mbl.is en þjóðirnar mætast aftur á Ásvöllum á miðvikudaginn. 

Kvennalandsliðið í handknattleik komst í fyrsta skipti í lokakeppni stórmóts þegar liðið vann sér keppnisrétt á EM 2010. Lokakeppnin var haldin í Danmörku og Noregi í desember árið 2010 en íslenska liðið lék í Árósum. 

Fyrsti leikur liðsins á stórmóti var gegn Króatíu hinn 7. desember en Króatía hafði betur 35:25. Á myndinni má sjá Karen Knútsdóttur sækja að vörn Króata en hún var valin besti leikmaður Íslands í leiknum af mótshöldurum. Myndina tók Hilmar Þór Guðmundsson sem tók myndir fyrir Morgunblaðið og mbl.is í keppninni. 

Karen Knútsdóttir er í liði Íslands í dag en Karen skoraði fyrsta mark Íslands á stórmóti þegar hún kom Íslandi 1:0 yfir gegn Króatíu. Tveir leikmenn eru í liði Íslands í Slóveníu í dag sem léku á EM í Danmörku; Karen og Rut Jónsdóttir. Við það má bæta að Anna Úrsúla Guðmundsdóttir er í æfingahópnum og gæti því mögulega komið við sögu í síðari leiknum gegn Slóveníu en hún var í stóru hlutverki á EM 2010. Þórey Rósa Stefánsdóttir er einnig í æfingahópnum og hún var með á HM í Brasilíu 2011.

Ári síðar komst Ísland í lokakeppni HM sem haldin var í Brasilíu. Er það í eina skipti sem Ísland hefur komist á HM kvenna í boltagreinum. Karen skoraði einnig fyrsta mark Íslands í lokakeppni HM og gerði það í sigurleik gegn Svartfjallalandi 22:21 í Santos.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert