Sænskir yfirburðir í Úkraínu

Sænska liðið vann öruggan sigur í Úkraínu.
Sænska liðið vann öruggan sigur í Úkraínu. Ljósmynd/Hlandslaget

Svíþjóð er svo gott sem búin að tryggja sér sæti á HM kvenna í handbolta eftir 28:14-útisigur á Úkraínu í fyrri leik liðanna í umspili í dag. Staðan í hálfleik var 15:7 og héldu yfirburðir sænska liðsins áfram í seinni hálfleik.

Leikmenn sænska liðsins skiptu mörkunum vel á milli sín því Jasmina Roberts var markahæst með fjögur mörk. Fjórir leikmenn skoruðu þrjú mörk og fimm leikmenn gerðu tvö mörk.

Rúmenía og Serbía eru einnig í góðum málum eftir sigra í fyrri leikjum sínum í dag. Rúmenía vann Norður-Makedóníu á heimavelli, 33:22, og Serbía vann 26:19-útisigur á Slóvakíu.

Þá skildu Tékkland og Sviss jöfn, 27:27, í Tékklandi og því mikil spenna fyrir seinni leikinn í Sviss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert