Vorum orðnar ragar og smeykar

Rut Jónsdóttir gat ekki komið í veg fyrir tíu marka …
Rut Jónsdóttir gat ekki komið í veg fyrir tíu marka tap. Ljósmynd/Robert Spasovski

„Við spiluðum ágæta vörn og markvarslan var fín á köflum en við vorum í mjög miklu basli í sókninni,“ sagði Rut Jónsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við RÚV eftir 14:24-tap fyrir Slóveníu ytra í fyrri leik liðanna í umspili HM.

„Við fengum ágætisfæri í sókninni en við fórum með þau og vorum orðnar ragar og smeykar. Mér finnst þetta ótrúlega leiðinlegt,“ bætti hún við. Rut hrósaði þeim Elínu Jónu Þorsteinsdóttur og Sögu Sif Gísladóttur, markvörðum Íslands. 

„Þær voru oft á tíðum mjög flottar og Saga kemur inn og tekur þrjú til fjögur víti, sem var frábært, og svo stóð Elín vel á bak við vörnina. Við þurfum að nýta það betur og vonandi fá hraðaupphlaup, bæði á fyrsta og öðru tempói,“ sagði Rut.

mbl.is