Ísland er komið á EM

Íslenska landsliðið fyrir leikinn í Litháen í dag sem tapaðist …
Íslenska landsliðið fyrir leikinn í Litháen í dag sem tapaðist 29:27. Það kom þó ekki að sök. Ljósmynd/HSÍ

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik er komið í lokakeppni Evrópumótsins 2022 sem fram fer í Slóvakíu og Ungverjalandi í janúar á næsta ári en úrslit í leik Ísraels og Portúgal sem var að ljúka gerðu endanlega útslagið.

Portúgalar unnu þar stórsigur í Tel Aviv, 41:29, og eru með 8 stig í riðlinum, Ísland 6, Litháen 4 og Ísrael 2 stig fyrir lokaumferðina þar sem Ísland mætir Ísrael og Litháen mætir Portúgal.

Þar sem Ísland er með betri innbyrðis útkomu í leikjunum tveimur við Litháen verður íslenska liðið alltaf í öðru sæti, þó þjóðirnar myndu enda jafnar að stigum í lokin. Ef Ísrael hefði sigrað Portúgal hefði enn verið möguleiki á að Ísland myndi detta niður í þriðja eða jafnvel fjórða sæti riðilsins.

Diogo Branquinho skoraði 9 mörk fyrir Portúgala í kvöld og André Gomes 6 en Yermiyahu Sidi var atkvæðamestur Ísraelsmanna með 8 mörk.

mbl.is