KA/Þór deildarmeistari eftir jafntefli í toppslagnum

Leikmenn KA/Þór tóku við bikarnum eftir að hafa tryggt sér …
Leikmenn KA/Þór tóku við bikarnum eftir að hafa tryggt sér sigur í deildinni í Safamýri. Ljósmynd/Jóhann G. Kristinsson

KA/Þór er deildarmeistari úrvalsdeildar kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, eftir æsispennandi 27:27 jafntefli gegn Fram í uppgjöri toppliðanna í Safamýri í dag. Um er að ræða fyrsta deildarmeistaratitil félagsins.

Fyrir lokaumferðina í dag voru liðin jöfn að stigum og því var um hreinan úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn og heimaleikjarétt í úrslitakeppninni að ræða.

Fram endar með betri markatölu í deildinni en KA/Þór endar í efsta sætinu vegna sigurs í leik liðanna á Akureyri fyrr á tímabilinu og hefur því betur í innbyrðis viðureignum liðanna.

Talsvert jafnræði var með liðunum stærstan hluta fyrri hálfleiksins, þó Fram hafi allan tímann verið með forystu. Eftir að hafa rokkað á milli þess að vera með tveggja og eins marks forystu hertu Framstúlkur tökin og komust í 14:10 eftir rúmlega 22 mínútna leik.

Staðan í hálfleik var svo 17:12 og Fram því í kjörstöðu.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir fær óblíðar móttökur frá varnarmönnum Fram í …
Rut Arnfjörð Jónsdóttir fær óblíðar móttökur frá varnarmönnum Fram í leiknum í dag. Ljósmynd/Jóhann G. Kristinsson

KA/Þór voru þó ekki á því að gefast upp og gáfu Fram sannarlega hörkuleik í síðari hálfleiknum. Þær færðust sífellt nær og var staðan orðin jöfn, 25:25, eftir 50 mínútna leik.

Lokamínúturnar voru því æsispennandi og endaði leikurinn með 27:27 jafntefli, sem nægði gestunum í KA/Þór til þess að hrósa sigri í Olísdeild kvenna í ár.

Hjá Fram fóru bæði Karen Knútsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir á kostum, en þær skoruðu báðar níu mörk. Karen gaf auk þess fimm stoðsendingar.

Hjá KA/Þór fóru Rakel Sara Elvarsdóttir og Rut Arnfjörð Jónsdóttir sömuleiðis á kostum. Rakel Sara skoraði níu mörk og Rut skoraði átta mörk, auk þess að gefa fjórar stoðsendingar.

Ljóst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni

Þrír aðrir leikir fóru fram í lokaumferð deildarinnar í dag. Valur vann auðveldan 27:20 sigur á HK, ÍBV marði botnlið FH með 20:19 sigri og Stjarnan tryggði sér 5. sætið með 26:24 sigri gegn Haukum.

Því er nú ljóst hvaða lið mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Efstu tvö liðin, KA/Þór og Fram, sitja hjá í fyrstu umferðinni á meðan Valur, sem endar í 3. sæti, mætir Haukum, sem endar í 6. sæti.

Í hinni viðureigninni mætast því ÍBV, sem endar í 4. sæti, og Stjarnan, sem endar í 5. sæti.

Það var hart barist í leiknum í dag.
Það var hart barist í leiknum í dag. Ljósmynd/Jóhann G. Kristinsson
mbl.is