Fór á kostum í óvæntum sigri gegn Ljónunum

Viggó Kristjánsson skoraði átta mörk og er fjórði markahæsti leikmaður …
Viggó Kristjánsson skoraði átta mörk og er fjórði markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar. AFP

Viggó Kristjánsson átti stórleik fyrir Stuttgart þegar liðið tók á móti Rhein-Necker Löwen í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag.

Viggó gerði sér lítið fyrir og skoraði átta mörk úr tíu skotum, ásamt því að gefa fimm stoðsendingar, en hann var markahæsti leikmaður Stuttgart í leiknum sem lauk með 32:28-sigri Stuttgart.

Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Löwen sem er í þriðja sæti deildarinnar með 42 stig, sjö stigum minna en topplið Kiel og Flensburg, en Flensburg og Kiel eiga þrjá leiki til góða á Löwen. Stuttgart er með 26 stig í tólfta sætinu.

Þá skoraði Oddur Gretarsson þrjú mörk úr þremur skotum þegar lið hans Balingen gerði 29:29-jafntefli við Minden á heimavelli.

Balingen er í sextánda sæti deildarinnar með 20 stig, fimm stigum frá fallsæti þegar níu umferðum er ólokið.

Bjarki Már Elísson skoraði tvö mörk fyrir Lemgo þegar liðið tapaði með tveggja marka mun á heimavelli fyrir Hannover-Burgdorf, 26:24, en Lemgo er með 26 stig í ellefta sæti deildarinnar.

Viggó Kristjánsson er sem stendur fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar á tímabilinu með 181 mark en Ómar Ingi Magnússon, leikmaður Magdeburg, er í þriðja sætinu með 188 mörk.

Marcel Schiller, leikmaður Göppingen, er markahæstur með 193 mörk en Bjarki Már Elísson, sem varð markakóngur deildarinnar á síðustu leiktíð, er í níunda sætinu með 148 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert