Rosalega mikið tækifæri í dag

Patrekur Jóhannesson lætur í sér heyra á hliðarlínunni í Vestmannaeyjum …
Patrekur Jóhannesson lætur í sér heyra á hliðarlínunni í Vestmannaeyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með sóknarleik sinna manna er liðið tapaði 36:34 fyrir ÍBV í Vestmannaeyjum í Olísdeild karla í handbolt. Mikið var skorað í leiknum en varnir liðanna voru ekki í hæsta gæðaflokki.

„Þetta var lélegur varnarleikur, reyndar hjá báðum liðum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við vorum skárri eftir að við breyttum í 5-1 vörnina, við vorum alltof staðir, ÍBV fékk síðan frábæra markvörslu. Petar varði mjög mörg dauðafæri af sex metrunum, við hefðum getað komið okkur í fleiri en þessi fjögur mörk sem við komum okkur í.“

„Það sem er jákvætt er það að við gáfumst ekki upp og náðum að jafna, við fórum illa með síðustu sóknina okkar.“

Stjörnumenn hleyptu Eyjamönnum oft í góðar stöður sem skiluðu auðveldum mörkum.

„Sóknarlega vorum við fínir í fyrri hálfleik, skoruðum tuttugu mörk og vorum ákveðnir, við fórum í árásirnar en við förum svo í þennan leik að reyna að senda í kringum centerinn fyrir framan. Það er eitthvað sem á alls ekki að gera og við ætluðum ekki að gera, það þróaðist þó í þá átt og ég hef ekki náð að koma því skýrar til minna manna. Árásirnar voru ekki nógu sannfærandi hjá okkur og við gerðum þeim létt fyrir, fleygðum boltanum of mikið frá okkur.“

Gríðarlega mikið hefur verið skorað í síðustu leikjum Stjörnunnar en þeir hafa sjálfir skorað yfir 30 mörk í undanförnum fimm leikjum og fengið á sig 22, 27, 30, 33 og 36 mörk, sem gera rétt tæplega 30 mörk í leik.

„Við höfum verið að vinna í sóknarleiknum, það er engin spurning. Oft er talað um mikilvægi varnarleiks og markvörslu og ég er alveg sammála því. Þó hefðum við unnið þennan leik ef við hefðum spilað aðeins klókari sóknarleik eins og við höfum verið að gera í síðustu leikjum. Við höfum bætt okkur mjög mikið sóknarlega.“

Markvarsla Stjörnunnar var alls ekki góð í dag, markverðirnir vörðu níu skot og þar af voru fjögur af vítalínunni og ekkert skot varið fyrir utan punktalínu.

„Ég er ánægður með Brynjar Darra, hann er að koma inn eftir höfuðhögg og hefur verið lengi frá. Hann fékk sínar mínútur og Adam er eins og ég hef áður sagt efnilegasti markvörðurinn á landinu. Ég veit að það væri auðveldara að vera með atvinnumann sem hefur verið að spila í einhverjum deildum eins og mörg lið eru að gera. Ég stend við það að Adam er frábær markvörður og þó að hann hafi ekkert verið spes í dag. Hann var frá handboltanum og fór í fótboltann, þá ágætu íþrótt, en hann er kominn til baka og hann er upp og niður, en því miður niður í dag.“

Það má ekki mikið útaf bregða hjá Stjörnumönnum ætli þeir sér í úrslitakeppnina, pakkinn er þéttur.

„Þess vegna er maður svona svekktur, ég þekki það alveg að koma hérna til Eyja að það er afrek að vinna hérna, en það var rosalega mikið tækifæri fyrir okkur í dag,“ sagði Patrekur en Stjarnan hefur ekki unnið í Vestmannaeyjum frá því að Eyjamenn komust upp í efstu deild 2013.

Patrekur var síðan spurður að því hvort að boltinn hafi verið inni í næst síðasta marki Eyjamanna.

„Hann var ekki inni, ég lét Jónas dómara heyra það, eflaust bara pirringur í mér þar sem ég er tapsár. Hann skammaði mig þegar ég fór til hans og var ekkert ánægður með þessa gagnrýni hjá mér. Viðbrögðin hans voru svo einlæg og svo heyrði ég það frá strákunum að boltinn hafi verið inni, svo ég tók það bara til baka. Mér fannst flott hjá honum að láta mig heyra það.“

mbl.is