Selfoss í fjórða sætið - Þór þarf kraftaverk

Einar Sverrisson skoraði sex mörk á Akureyri.
Einar Sverrisson skoraði sex mörk á Akureyri. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga þegar liðið heimsótti Þór frá Akureyri í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Höllina á Akureyri í dag.

Einar skoraði sjö mörk í sex marka sigri Selfyssinga, 27:21, en Selfoss leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 13:11.

Vilius Rasimas varði þrettán skot í marki Selfoss og var með 39% markvörslu en Ragnar Jóhannsson var einnig öflugur fyrir Selfyssinga og skoraði sex mörk.

Ihor Kopyshynskyi var markahæstur Þórsara með sex mörk og Þórður Ágústsson skoraði fimm.

Selfoss er með 22 stig í fjórða sæti deildarinnar en Þórsarar eru með 8 stig í ellefta og næstneðsta sætinu, fjórum stigum frá öruggu sæti, þegar þrjár umferðir eru eftir af tímabilinu og þurfa kraftaverk til að halda sæti sínu í deildinni.

Agnar Smári Jónsson var markahæstur Valsmanna gegn Gróttu.
Agnar Smári Jónsson var markahæstur Valsmanna gegn Gróttu. Ljósmynd/Árni Torfason

Martin Nagy átti stórleik í liði Vals þegar liðið fékk Gróttu í heimsókn í Origo-höllina á Hlíðarenda.

Leiknum lauk með tólf marka sigri vals, 36:24, en Nagy varði fimmtán skot og var með 40% markvörslu.

Valsmenn leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 18;14, og juku forskot sitt hægt og rólega í síðari hálfleik.

Agnar Smári Jónsson skoraði átta mörk fyrir Valsmenn og Magnús Óli Magnússon og Anton Rúnarsson fimm mörk hvor.

Hjá Gróttu var Daníel Örn Griffin markahæstur með sjö mörk og Birgir Steinn Jónsson skoraði fjögur.

Valsmenn eru með 21 stig í sjötta sæti deildarinnar, tveimur stigum meira en Afturelding og KA, en Grótta er í tíunda sætinu með 12 stig, fjórum stigum frá fallsæti.

Árni Bragi Eyjólfsson átti stórleik í Breiðholti.
Árni Bragi Eyjólfsson átti stórleik í Breiðholti. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Árni Bragi Eyjólfsson fór á kostum fyrir KA þegar liðið vann tíu marka sigur gegn ÍR í Austurbergi í Breiðholti. 

Árni Bragi skoraði fjórtán mörk, þar af fimm úr vítaköstum, en leiknum lauk með tíu marka sigri KA, 32:22.

KA fer með sigrinum upp í áttunda sæti deildarinnar í 19 stig en liðið hefur eins stigs forskot á Fram, sem er í níunda sætinu. Þá eiga Akureyringar leik til góða á Framara.

ÍR er sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar án stiga og löngu fallið úr deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert