Sigldu fram úr á lokamínútunum

Birgir Már Birgisson var besti maður Hafnfirðinga í dag.
Birgir Már Birgisson var besti maður Hafnfirðinga í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Már Birgisson átti stórleik fyrir FH þegar liðið tók á móti Aftureldingu í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Kaplakrika í Hafnarfirði í dag.

Leiknum lauk með 30:27-sigri FH en Birgir Már skoraði níu mörk úr tólf skotum og var markahæsti maður vallarins.

Afturelding byrjaði leikinn betur og leiddu með þremur mörkum eftir tíu mínútna leik, 8:5. Þá hrukku Hafnfirðingar í gang og var staðan 17:13, FH í vil, í hálfleik.

FH náði mest fimm marka forskoti í síðari hálfleik en þegar sjö mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 27:27. Hafnfirðingar voru hins vegar sterkari á lokamínútunum.

Phil Döhler átti stórleik í marki FH, var með 39% markvörslu og sautján skot varin, og þá skoraði Einar Rafn Eiðsson sex mörk fyrir FH.

Bergvin Þór Gíslason og Þorsteinn Leó Gunnarsson voru markahæstir í liði Aftureldingar með sex mörk hvor.

FH er með 26 stig í öðru sæti deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu, fimm stigum minna en topplið Hauka.

Afturelding er í sjöunda sætinu með 19 stig, einu stigi meira en Fram, sem er í áttunda sætinu.

mbl.is