Deildarmeistaratitillinn var alger bónus

Rut Jónsdóttir skorar eitt af átta mörkum sínum í leik …
Rut Jónsdóttir skorar eitt af átta mörkum sínum í leik KA/Þórs gegn Fram á laugardaginn. Ljósmynd/Jóhann G. Kristinsson

Í fyrsta skipti frá árinu 2006 fór bikarinn fyrir sigur í úrvalsdeild kvenna á Íslandsmótinu í handknattleik út á land. KA/Þór varð deildarmeistari eftir að liðið gerði jafntefli gegn Fram 27:27 í Safamýri í lokaumferðinni.

Liðin fengu bæði 21 stig í deildinni en KA/Þór vann fyrri leik liðanna á Akureyri og er því með betri árangur í innbyrðisviðureignum liðanna. Bikarinn fór því til Akureyrar en fyrir fimmtán árum fór bikarinn til Vestmannaeyja. Í millitíðinni hafa Valur, Fram, Stjarnan og Grótta náð deildarmeistaratitlinum.

„Við erum ótrúlega stoltar af þessu. Þetta er náttúrlega fyrsti titillinn sem kemur hjá KA/Þór og ég hafði heldur aldrei orðið deildarmeistari í meistaraflokki hér á Íslandi. Mér finnst þetta mjög flott vegna þess að sigur í deildinni krefst stöðugleika.

Mér finnst við hafa verið flottar allt tímabilið. Auðvitað langar okkur einnig að verða Íslandsmeistarar enda er það titillinn sem allir sækjast eftir en við erum mjög ánægðar með þetta. Við fögnum vel þótt við ætlum okkur einnig að reyna að verða Íslandsmeistarar,“ sagði Rut Jónsdóttir, landsliðskona hjá KA/Þór, í gær.

Efsta sætinu í deildakeppninni fylgir einnig heimaleikjaréttur í úrslitakeppni.

„Já auðvitað er það frábært. Ég hef heyrt af því hvernig stemningin getur verið í KA-heimilinu en ég hef því miður ekki fengið að upplifa það á þessu keppnistímabili. Maður lætur sig dreyma um fullt KA-heimili. Við fylgjum auðvitað reglum en vonumst til að fleiri geti mætt á leikina á næstunni.“

Viðtalið við Rut má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert