Valur einum sigri frá undanúrslitum

Thea Imani Sturludóttir skorar eitt marka sinna í leiknum í …
Thea Imani Sturludóttir skorar eitt marka sinna í leiknum í dag. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Valskonur eru komnar í 1:0 í einvígi sínu gegn Haukum í baráttunni um sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta eftir 25:19-sigur er liðin mættust í Origo-höllinni í dag. Tvo sigra þarf til að fara í undanúrslit.

Valskonur fóru mun betur af stað og komust í 3:1 snemma leiks. Heimakonur héldu áfram að bæta í forskotið framan af leik og varð það mest sex mörk í fyrri hálfleik, 12:6.

Haukar neituðu að gefast upp og með flottum kafla í lok hálfleiksins náðu gestirnir að minna muninn í tvö mörk, en staðan í hálfleik var 13:11, Val í vil.

Lovísa Thompson og Thea Imani Sturludóttir skiptust á að skora falleg mörk fyrir Val og voru þær með fjögur mörk hvor í hálfleiknum. Það hægðist þó á þeim undir lok hálfleiksins, en Valskonur skoruðu aðeins eitt mark á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks.

Hin sænska Sara Odden var lengi í gang, en hún skoraði þrjú af fjórum síðustu mörkum Hauka í fyrri hálfleik og var alls með fjögur mörk fyrir leikhlé.

Valskonur fóru betur af stað í seinni hálfleik og þegar hann var tæplega hálfnaður var munurinn aftur orðinn fimm mörk, 17:12. Haukar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn aftur niður í þrjú mörk skömmu síðar, 20:17.

Gestunum tókst hins vegar ekki að minnka muninn í tvö mörk, þrátt fyrir nokkur fín tækifæri og að lokum sigldi Valur sigrinum í höfn.

Thea Imani Sturludóttir var markahæst hjá Val með átta mörk og Lovísa Thompson skoraði sjö. Saga Sif Gísladóttir átti góðan leik á milli stanga heimakvenna og varði 14 skot. Sara Odden gerði átta mörk fyrir Hauka og Annika Fridheim varði 13 skot.

Sigurvegari einvígisins mætir Fram í undanúrslitum. Annar leikur liðanna fer fram á sunnudag á Ásvöllum. 

Boltinn vildi ekki inn

Sigur Valskvenna var verðskuldaður, enda var liðið yfir allan leikinn. Haukakonur voru hins vegar klaufar þegar mest var undir. Haukar fengu fjölmörg tækifæri til að minnka muninn í tvö mörk þegar skammt var eftir, en inni vildi boltinn ekki. 

Hvað eftir annað fóru Haukakonur illa með góð tækifæri og m.a. víti til að gera leikinn æsispennandi. Þess í stað gengu Valskonur á lagið og unnu sex marka sigur, sem gefur ekki endilega rétta mynd af leiknum. 

Valskonur voru einfaldlega sterkari þegar mest var undir og með Lovísu Thompson, Theu Imainu Sturludóttur og Sögu Sif Gísladóttur í stuði var róðurinn þungur fyrir Hauka. 

Valur 25:19 Haukar opna loka
60. mín. Elín Rósa Magnúsdóttir (Valur) skoraði mark Valskonur eru að klára þetta með stæl.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert