Haukar deildarmeistarar eftir stórsigur í grannaslagnum

Haukar fagna deildarmeistaratitlinum í kvöld.
Haukar fagna deildarmeistaratitlinum í kvöld. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Haukar tryggðu sér í kvöld deildarmeistaratitilinn í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, þegar þeir unnu magnaðan 34:26 stórsigur á nágrönnum sínum og erkifjendum í FH á Ásvöllum.

Eins og oft vill verða var gífurlegt jafnræði með liðunum til að byrja með þar sem þau skiptust á að skora. Þegar staðan var orðin 10:10 eftir um 20 mínútna leik hertu heimamenn í Haukum þó tökin og skoruðu næstu þrjú mörk.

Eftir það var ekki aftur snúið og náðu Haukar mest fimm marka forystu í fyrri hálfleiknum, og kom síðasta markið á lokasekúndunni. Staðan í hálfleik 17:12.

Í síðari hálfleik voru heimamenn áfram við sama heygarðshornið og bættu bara í. Eftirleikurinn reyndist enda auðveldur og komust Haukar mest í 12 marka forystu, 33:21, á 52. mínútu.

Leiknum lauk svo með öruggum átta marka sigri, 34:26 og Haukar eru deildarmeistarar Olísdeildarinnar árið 2021.

Haukar voru sannarlega í miklu stuði í kvöld og var mörkunum bróðurlega skipt á milli leikmanna í frábærri liðsframmistöðu. Brynjólfur Snær Brynjólfsson og Stefán Rafn Sigurmannsson skoruðu báðir fimm mörk, Tjörvi Þorgeirsson fjögur og fjórir leikmenn skoruðu þrjú mörk.

Björgvin Páll Gústavsson fór svo á kostum í marki Hauka og varði 16 skot, og var með rétt rúmlega 42 prósent markvörslu.

Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í kvöld.
Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í kvöld. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Markahæstur í leiknum var þó FH-ingurinn Einar Rafn Eiðsson með átta mörk, þar af fjögur úr vítaköstum.

Orri Freyr Þorkelsson hleypur með boltann.
Orri Freyr Þorkelsson hleypur með boltann. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson
Haukar 34:26 FH opna loka
60. mín. Haukar tapar boltanum
mbl.is