„Það er eitthvað í loftinu núna“

Jónatan Magnússon líflegur á hliðarlínunni í kvöld.
Jónatan Magnússon líflegur á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jónatan Magnússon, þjálfari KA i Olís-deild karla í handbolta, var greinilega meira að hugsa um næsta leik en leikinn í kvöld eftir jafntefli KA og Þórs í miklum slag í KA-heimilinu. Þórsarar voru fallnir en vildu kveðja deildina með því að vinna en fyrir KA skipti leikurinn ekki höfuðmáli. 

Þú ert nú varla ánægður með þessi úrslit. Það er ljóst að þið mætið Val í átta liða úrslitum. Skipti þessi leikur kannski engu máli? 

„Við erum að spila þennan leik vitandi að við erum að fara í mikilvægari leik í úrslitakeppninni eftir fjóra fimm daga. Þórsarar spila þennan leik vitandi að þeir eru fallnir. Það var meira undir hjá þeim að reyna að vinna okkur. Við vorum búnir að vinna þá tvisvar í vetur og kannski innst inni ætluðum við að vinna þá með tíu en spara okkur í leiðinni. Við duttum alveg niður á þeirra tempó og keyrðum ekki á þá seinni bylgju eða neitt. Færanýtingin hjá okkur er svo bara vond en ég hef engar áhyggjur af því. Það mun ekki gerast tvo leiki í röð. Við fórum alveg agalega illa með dauðafæri úr vítum og hornunum. Þetta varð til þess að við náðum ekkert að ná frumkvæði í leiknum.“ 

Jovan Kukobat í marki Þórs var að verja mjög vel. 

„Jovan hefur alveg tekið svona leiki og markmannsframmistaðan á upphafsmínútunum var með ólíkindum hjá báðum markmönnunum. Spennustigið var mikið og mikil læti í húsinu. Við höfum getað nýtt okkur það í síðustu heimaleikjum til að knýja fram sigra. Þetta var bara ágætis æfing fyrir okkur fyrir úrslitakeppnina. Við ætluðum að komast heilir frá þessu og fara í gegnum þetta aðeins auðveldara en svo vorum við bara að tapa og þegar þessi lið eru að spila þá viltu alls ekki tapa.“ 

Þeir hefðu getað híað aðeins á ykkur með því að vinna. 

„Já en nú er þetta bara búið en það hefði verið mjög gott að fá eitt stig í viðbót með sigri til þess að koma okkur í sem besta stöðu. Þetta þýðir að Valsmenn bíða okkar. Við ætlum ekkert að vera einhverjir farþegar í úrslitakeppninni. Ég get bara ekki beðið eftir fyrri leiknum við Val hér á þriðjudaginn. Nú er bara að sturta þennan leik af sér og bjóða upp á skemmtilegan leik á þriðjudaginn. Við ætlum náttúrulega að fara áfram og förum á fulli í tvo næstu leiki. Við eigum enn eftir á tanknum og viljum spila fyrir fullu húsi af okkar geggjuðu áhorfendum. Ég er sannfærður um það að við eigum góðan séns á að fara áfram. Við þurfum topp frammistöðu en ég hef mikla trú á mínum mönnum. Það er eitthvað í loftinu núna og ég er sannfærður um að við fáum frábæra liðsframmistöðu á þriðjudaginn og vinnum Val“ sagði Jónatan að lokum. 

mbl.is