KA/Þór Íslandsmeistari í fyrsta sinn

Stúlkurnar í KA/Þór glaðbeittar eftir að hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn …
Stúlkurnar í KA/Þór glaðbeittar eftir að hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn. mbl.is/ Sigurður Unnar Ragnarsson

KA/Þór er Íslandsmeistari kvenna í handknattleik í fyrsta sinn eftir 25:23-sigur á Val á Hlíðarenda í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins, Olísdeildarinnar, í dag. KA/Þór vann einvígið 2:0. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslandsbikarinn fer til Akureyrar síðan 2002 er karlalið KA varð Íslandsmeistari.

Leikurinn var í járnum á upphafsmínútunum og skiptust liðin á að hafa forystuna. Akureyringar fjölmenntu til Reykjavíkur og studdu vel við liðið sitt í von um að sjá Íslandsbikarinn fara á loft í fyrsta sinn. Eftir jafnan upphafkafla gerðist það á 20. mínútu að munurinn varð fyrst tvö mörk þegar Kristín Jóhannsdóttir kom KA/Þór í 7:9 forystu. Þá tók Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, leikhlé og virtist það fyrst um sinn hafa svínvirkað. Elín Rósa Magnúsdóttir og Lovísa Thompson skoruðu næstu tvö mörk leiksins til að jafna metin, 9:9 eftir 22 mínútur. Heimakonur áttu þó ekki eftir að skora nema eitt mark til viðbótar fyrir leikhlé.

Sem betur fer fyrir Val voru norðankonur sömuleiðis í nokkrum vandræðum með sóknarleik sinn, en þær tóku þó aftur forystuna og voru yfir í hálfleik, 9:12. Rut Arnfjörð Jónsdóttir var markahæst í fyrri hálfleik, skoraði fjögur mörk og þá var Martha Hermannsdóttir með þrjú, öll úr vítum. Hjá Val voru þær Auður Ester Gestsdóttir, Lovísa Thompson, Thea Imani Sturludóttir og Lilja Ágústsdóttir allar með tvö mörk.

Lovísa Thompson sækir að KA/Þór vörninni í Origo-höllinni í dag.
Lovísa Thompson sækir að KA/Þór vörninni í Origo-höllinni í dag. mbl.is/ Sigurður Unnar Ragnarsson

Það var svo hlutverk Valsara í síðari hálfleik að elta. Munurinn varð í fyrsta sinn þrjú mörk á 38. mínútu, 12:15 norðankonum í vil, jafnvel þó Saga Sif Gísladóttir hafi verið að verja mikilvæg skot þess á milli í marki Vals. Vandamálinu voru aðallega á hinum enda vallarins þar sem heimakonum gekk illa að skora.

Thea Imani var með tvö mörk úr sex skotum í fyrri hálfleik en hægri skyttan átti eftir að bæta leik sinn töluvert eftir hlé er Valsarar náðu áhlaupi. Hún skoraði alls níu mörk, þar af fjögur úr vítum en klikkaði á ögurstundu úr vítakasti þegar rúm mínúta var eftir. Hún skoraði þess í stað stuttu seinna, staðan 23:24, og reyndu Valskonur svo hvað þær gátu til að stela boltanum í lokin.

Norðankonur fengu síðustu sóknina þegar um 20 sekúndur voru eftir og Aldís Ásta skoraði lokamarkið til að gulltryggja sigurinn en það var hennar sjötta mark. Martha Hermannsdóttir var einnig með sex mörk fyrir KA/Þór, þar af fimm úr vítum en kjarni liðsins samanstendur af uppöldum leikmönnum. Þá var Rut Arnfjörð Jónsdóttir með fimm mörk og frábær í leiknum en landsliðskonan sneri heim úr atvinnumennsku á síðasta ári og gekk til liðs við norðankonur.

Rut var púslið sem vantaði í liðið. Það vantaði ein­hverja með reynslu, hún hef­ur svaka­lega yf­ir­sýn yfir völl­inn og bara lang­besti leikmaður liðsins. Ég vissi að hún væri góð en ekki að hún væri svona góð,“ sagði hin margreynda Martha Hermannsdóttir við mbl.is að leik loknum.

Norðankonur fagna í leikslok.
Norðankonur fagna í leikslok. mbl.is/ Sigurður Unnar Ragnarsson
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 23:25 KA/Þór opna loka
60. mín. KA/Þór tapar boltanum
mbl.is