Rashford gæti misst af fyrstu leikjum United

Marcus Rashford.
Marcus Rashford. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford gæti misst af byrjun næsta keppnistímabils á Englandi en hann er leikmaður Manchester United.

Sóknarmaðurinn hefur glímt við meiðsli í öxl undanfarna mánuði og þarf að fara í aðgerð. Hann er hins vegar ekki tilbúinn að missa af Evrópumeistaramótinu með enska landsliðinu og ætlar því að fresta aðgerðinni þangað til England lýkur keppni.

Rashford spilaði 59 leiki á tímabilinu og hefur viðurkennt að hann á erfitt með að jafna sig á milli leikja vegna meiðslanna. The Mirror segir frá því að hann vilji þess vegna fara í aðgerð, en þó ekki fyrr en að loknu EM. Fari England alla leið í úrslitaleikinn á Wembley í júlí er því ljóst að framherjinn verður frá fyrstu vikurnar á næstu leiktíð.

Samkvæmt heimildarmönnum miðilsins eru forráðamenn Manchester United þó ekki ósáttir við ákvörðunina og hafa lagt blessun sína yfir ákvörðun Rashford um að spila með enska landsliðinu.

Rashford er fyrirliði Englands í dag þegar liðið tekur á móti Rúmeníu í vináttulandsleik klukkan 16.00.

mbl.is