„Þetta er draumur í dós!“

Martha Hermannsdóttir var valin mikilvægasti leikmaður í leikslok.
Martha Hermannsdóttir var valin mikilvægasti leikmaður í leikslok. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

„Þetta er draumur sem maður auðvitað vonaðist til að myndi rætast, en það var ansi langt í hann fyrir nokkrum árum bara. Að vinna þessa titla með uppeldisfélaginu, þetta er draumur í dós!“ sagði ánægð Martha Hermannsdóttir í samtali við mbl.is eftir að hún varð Íslandsmeistari í handknattleik með uppeldisfélaginu KA/Þór.

KA/Þór var spáð fimmta sætinu fyrir tímabilið í vetur og viðurkennir Martha að markmiðið hjá norðankonum hafi ekkert verið mikið meira en það til að byrja með. „Við settum okkur það markmið fyrir tímabilið að komast í úrslitakeppnina, það var ekki meira en það til að byrja með.

Við vorum algjörlega jarðaðar í bikarúrslitum gegn Fram í fyrra en mætum þeim svo í meistarakeppninni í haust og ætluðum okkur að gera aðeins betur. Svo vinnum við þann leik og áttum okkur á því að við erum kannski bara ágætar.“

Þá segir hún að sjálfstraust liðsins hafi vaxið jafnt og þétt og tapaði liðið ekki nema einum deildarleik allt tímabilið. „Við náum svo að bæta okkur jafnt og þétt allt mótið, Andri Snær þjálfari var alltaf að segja að við ættum eitthvað inni þó við værum að spila vel. Við vorum alltaf að bæta okkur meira og meira.“

Landsliðskon­an Rut Arn­fjörð Jóns­dótt­ir sneri heim úr at­vinnu­mennsku í fyrra og gekk til liðs við KA/Þór sem að öðru leyti er að mestu skipað uppöldum leikmönnum. Martha segir innkomu hennar hafa skipt sköpum.

„Þetta eru frábærar uppaldar stelpur allt saman, nema Rut, með stáltaugar og frábærar í handbolta. Rut var púslið sem vantaði í liðið. Það vantaði einhverja með reynslu, hún hefur svakalega yfirsýn yfir völlinn og bara langbesti leikmaður liðsins. Ég vissi að hún væri góð en ekki að hún væri svona góð.“

En ætlar Martha, sem spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik í handbolta fyrir um 23 árum, að halda áfram að spila á næstu leiktíð?

„Já, ég held það. Ég er allavega ekki búin að gefa það út að skórnir séu að fara á hilluna. Á meðan ég er heil og get hjálpað eitthvað liðinu, það er geggjað að geta spilað bara vörn og tekið víti. Það er enginn leikmaður að fara úr liðinu og við bætum við okkur Unni Ómarsdóttur frá Fram. Við erum að styrkjast og hljótum að hafa háleit markmið fyrir næsta tímabil,“ sagði Martha Hermannsdóttir við mbl.is.

mbl.is