Töpuðu eina stiginu í lokaumferðinni

Sigvaldi Björn Guðjónsson var að ljúka sínu fyrsta tímabili með …
Sigvaldi Björn Guðjónsson var að ljúka sínu fyrsta tímabili með Kielce sem varð meistari og bikarmeistari í Póllandi. Ljósmynd/HSÍ

Sigvaldi Björn Guðjónsson og samherjar í Kielce töpuðu sínu fyrsta og eina stigi í pólsku úrvalsdeildinni í handknattleik þegar þeir mættu Wisla Plock í lokaumferðinni á heimavelli í dag.

Kielce hafði unnið alla 25 leiki sína og hafði þegar tryggt sér meistaratitilinn og var sex stigum á undan Wisla. 

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 29:29 en í Póllandi er farið í vítakastkeppni ef leikirnir enda með jafntefli. Kielce vann hana 4:3 og fékk því tvö stig fyrir leikinn en Wisla eitt. Þrjú stig eru annars gefin fyrir sigur í venjulegum leiktíma.

Kielce fékk þar með 77 stig af 78 mögulegum í 26 leikjum á tímabilinu en Wisla Plock fékk 70 stig í öðru sæti og Azoty-Pulawy varð í þriðja sæti með 61 stig. Sigvaldi skoraði ekki í leiknum í dag. Haukur Þrastarson er einnig í röðum Kielce en hann sleit krossband í hné í október og missti því af mestöllu tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert