Haukar í góðri stöðu eftir sigur í Garðabæ

Brynjar Hólm Grétarsson sækir að marki Hauka í kvöld.
Brynjar Hólm Grétarsson sækir að marki Hauka í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Deildarmeistarar Hauka standa vel að vígi í einvígi sínu við Stjörnuna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla eftir sterkan 28:23 sigur í fyrri leik liðanna í Garðabænum í kvöld.

Heimamenn í Stjörnunni byrjuðu af gífurlegum krafti á meðan Haukar voru heillum horfnir. Komst Stjarnan í 1:4 eftir tæplega sjö mínútna leik á meðan skot Hauka geiguðu hvað eftir annað.

Eftir að Stjörnumenn komust í 2:5 hófu Haukar þó að vinna sig betur og betur inn í leikinn og minnkuðu muninn í 4:5.

Þá fór Haukavélin að malla og eftir að hafa lent 4:6 undir skoruðu gestirnir næstu fjögur mörk og komust þannig í tveggja marka forystu, 8:6.

Haukar tóku þar með leikinn yfir og óx aðeins ásmegin. Eftir að Stjörnumenn náðu að minnka muninn í 11:8 eftir rúmar 24 mínútur var markaskorun þeirra í fyrri hálfleik lokið. Á meðan juku Haukar forskot sitt og fóru með sjö marka forystu, 15:8, í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn nokkurn veginn nákvæmlega eins og sá fyrri, þar sem Stjarnan skoraði fimm mörk á móti einu hjá Haukum og minnkaði muninn í þrjú mörk, 16:13.

Haukar tóku þá leikhlé og hófu að taka aðeins við að sér að nýju eftir það, þar sem þeir skoruðu næstu tvö mörk og komu sér í fimm marka forystu, 18:13.

Stjörnumenn voru ekkert á því að gefast upp og náðu aftur að minnka muninn í þrjú mörk, 19:16. Enn á ný tóku Haukar við sér og komust í fimm marka forystu á ný, 22:17.

Saga síðari hálfleiksins hélt áfram og Stjörnumenn minnkuðu muninn aftur í þrjú mörk, 24:21. Ef það var ekki orðið augljóst náðu Haukar fimm marka forystu á ný og unnu að lokum góðan 28:23 sigur.

Síðari leikur liðanna fer fram á Ásvöllum í Hafnarfirði næstkomandi föstudagskvöld.

Björgvin Þór Hólmgeirsson átti stórleik í liði Stjörnunnar og skoraði 10 mörk, en það dugði þó ekki til.

Markaskorun dreifðist vel á milli leikmanna hjá Haukum og Björgvin Páll Gústavsson átti mjög góðan leik í markinu þar sem hann varði 13 skot, sem gerir rétt rúmlega 38 prósent markvörslu.

Þrátt fyrir að Stjörnumenn hafi velgt Haukum vel undir uggum virðast deildarmeistararnir alltaf finna leiðir til þess að koma sér í forystu að nýju.

Liðið býr enda svo vel að vera með gífurlega sterkan leikmannahóp; ef einhverjir leikmanna þess eru ekki að finna taktinn er hægt að leita til varamannabekkjarins án þess að það missi taktinn og fæst því alltaf framlag frá nógu mörgum leikmönnum til þess að Haukaliðið sé ofan á að leikslokum.

Stjarnan 23:28 Haukar opna loka
60. mín. Darri Aronsson (Haukar) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert