Valsmenn í góðri stöðu eftir magnaðan leik

Þorgils Jón Svölu Baldursson sækir að vörn ÍBV í kvöld.
Þorgils Jón Svölu Baldursson sækir að vörn ÍBV í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Valur er í fínum málum eftir 28:25-útisigur í fyrri leik liðsins við ÍBV í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í Vestmannaeyjum í kvöld. Það lið sem vinnur samanlagt í tveimur leikjum fer áfram í úrslit og mætir Haukum eða Stjörnunni.

Staðan var jöfn, 14:14, eftir hraðan og skemmtilegan fyrri hálfleik þar sem liðin skiptust á góðum áhlaupum og að vera með forystuna.

Eftir hnífjafnar fyrstu mínútur skoraði Valur þrjú mörk í röð um miðbik hálfleiksins og komst í 10:7. ÍBV jafnaði í 11:11 og komst síðan í 12:11, en eftir mikið jafnræði og spennu var staðan jöfn í hálfleik.

Leikurinn var mjög hraður, harður og skemmtilegur og voru varnir og sóknir beggja liða að spila vel, þótt markverðirnir væru ekki að ná sér mikið á strik.

Valsmenn fóru mun betur af stað í seinni hálfleik og voru snöggir að ná fimm marka forskoti, 21:16. Eyjamenn gáfust hinsvegar ekki upp og með góðum leik tókst heimamönnum að minnka muninn í tvö mörk, 24:22 þegar tæpar tíu mínútur voru til leikslok og svo 24:23.

Valur skoraði næstu tvö mörk og komst í 26:23 þegar lítið var eftir. ÍBV fékk víti þegar tíu sekúndur voru eftir og úr því skoraði Hákon Daði Styrmisson, 27:25, en Anton Rúnarsson átti lokaorðið þegar hann skoraði nánast frá miðju og tryggði Valsmönnum þriggja marka sigur.

Anton var markahæstur hjá Val með 10 mörk og Hákon Daði Styrmisson skoraði 7 fyrir ÍBV. Martin Nagy varði 15 skot í marki Vals. Seinni leikur liðanna fer fram í Origo-höllinni á Hlíðarenda næstkomandi föstudagskvöld.

Ótrúlegur Anton

Anton Rúnarsson lék ótrúlega vel með Valsmönnum, skoraði tíu mörk og lagði upp nokkur til viðbótar og við leiðtogi hjá gestunum. Þegar mest var undir og stemningin mest í höllinni Í Vestmannaeyjum hélt Anton ró sinni og dró sína menn að landi. Hann fullkomnaði góðan leik með mögnuðu marki í síðustu sókninni. 

Þetta er þó alls ekki búið. ÍBV er svo sannarlega eitt af fáum liðum landsins sem geta mætt á útivöll Valsmanna og unnið stóran sigur. Valsmenn þurfa að vera með kveikt á öllum perum til að fara áfram, þótt staðan sé vissulega góð. 

ÍBV þarf að fá meira úr Theodóri Sigurbjörnssyni og fleiri mörk frá Sigtryggi Daða Rúnarssyni til að komast áfram á meðan Valsmenn þurfa að halda sínu striki. Það er nóg eftir í þessu einvígi. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

ÍBV 25:28 Valur opna loka
60. mín. Dagur Arnarsson (ÍBV) skoraði mark Í gólfið og inn. 40 sekúndur eftir.
mbl.is