„Eitt það magnaðasta sem ég hef séð“

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, viðurkenndi að honum hafi ekki liðið mjög vel undir lok síðari leiks liðsins gegn ÍBV í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í Origo-höllinni að Hlíðarenda í kvöld.

„Mér líður náttúrlega svakalega vel núna en á ákveðnum tímapunkti í leiknum leið mér ekkert mjög vel. Við vorum frábærir í svona 40 mínútur og erum með góð tök á leiknum en svo förum við svolítið úr okkar línu og ég svo sem veit ekki alveg hvað veldur.

Við einhvern veginn missum taktinn, það eru margir tæknifeilar og þeir komast inn í leikinn og setja okkur bara undir pressu,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is eftir leikinn, sem endaði með 27:29 tapi, en Valur vann fyrri leikinn í Vestmannaeyjum 28:25.

Hann sparaði auk þess ekki stóru orðin í garð Einars Þorsteins Ólafssonar sem bjargaði Val fyrir horn með magnaðri vörn á lokasekúndunum og tryggði þar með samanlagðan eins marks sigur liðsins í einvíginu.

„Lokamínúturnar eru erfiðar og við í raun heppnir en Einar Þorsteinn og þessi vörn hans í lokin er bara eitt það magnaðasta sem ég hef séð,“ sagði Snorri Steinn.

Vinnan hefst á morgun

Valur mætir deildarmeisturum Hauka í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins. „Ég er bara ánægður og stoltur af þeim að vera komnir í úrslit, það er ægilega gott en það mátti ekki tæpara vera,“ bætti hann við.

Snorri Steinn kveðst ætla að reyna að njóta augnabliksins í kvöld en að undirbúningsvinna fyrir úrslitaeinvígið hefjist strax í fyrramálið.

„Ég veit alveg hvað hefur verið í gangi hjá Haukum og að þeir hafa verið stórkostlegir í vetur og besta liðið hingað til. En við erum ekkert smeykir við þá, við erum búnir að vinna þá einu sinni í vetur. Við þurfum auðvitað að vanda okkur og spila betur.

Ég ætla að reyna að vera rólegur þangað til í fyrramálið og svo byrja ég að klippa myndbönd af Haukum, ég og Óskar [Bjarni Óskarsson aðstoðarþjálfari] förum yfir það. Það var geggjuð stemning hérna í kvöld og eins og þetta tímabil er búið að vera eru það bara forréttindi að vera að fara að spila þessa úrslitaleiki,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is