Haukar í úrslit þrátt fyrir tap

Atli Már Báruson sækir að vörn Stjörnunnar.
Atli Már Báruson sækir að vörn Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukar leika til úrslita um Íslandsmeistaratitil karla í handbolta þrátt fyrir 29:32 fyrir Stjörnunni á Ásvöllum í kvöld. Haukar unnu fyrri leikinn með fimm mörkum og einvígið því með tveimur mörkum. Haukar mæta Val eða ÍBV í úrslitum.

Það var mikið jafnræði með liðunum framan af í seinni hálfleik en Haukar náðu tveggja markaforskoti, 10:8, þegar hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður. Þá tóku Stjörnumenn heldur betur við sér.

Með sjö mörkum í röð breyttu Stjörnumenn stöðunni í 15:10, sér í vil, og jöfnuðu einvígið í leiðinni. Haukar áttu hinsvegar lokaorðið í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi því 15:11 og Haukar einu marki yfir í einvíginu.

Stjörnumenn voru snöggir að ná aftur fimm marka forskoti í seinni hálfleik og jafna í einvíginu en fínn kafli hjá Haukum um miðbik hálfleiksins kom þeim 22:19 yfir og tveimur mörkum yfir samanlagt.

Haukar héldu áfram að spila vel og tókst þeim að jafna tíu mínútum fyrir leikslok, 24:24. Stjarnan beit aftur frá sér og komst í 28:25 eftir leikhlé hjá Patreki Jóhannessyni. Stjörnumenn komust hinsvegar ekki nær og Haukar fögnuðu sæti í úrslitum.

Haukavélin mallar áfram

Þrátt fyrir að Stjarnan hafi unnið upp fimm marka forskot voru Haukar alltaf líklegri til að sigla sigrinum í einvíginu í höfn. Stjarnan gerði vel í að jafna einvígið, en Haukarnir voru sterkari þegar pressan var mest. 

Þegar heimamenn þurftu virkilega á markvörslu að halda kom Björgvin Páll Gústavsson liðinu til bjargar á meðan Brynjólfur Snær Brynjólfsson var gríðarlega traustur í hægra horninu og skorað úr hverju þrönga færinu á fætur öðru. 

Tandri Már Konráðsson skoraði tíu mörk fyrir Stjörnuna en hann tapaði líka boltanum illa þegar Stjarnan gat komist yfir í viðureigninni og skaut í slá undir lokin þegar liðinu vantaði nauðsynlega mark. Þetta var stöngin út hjá Stjörnunni, þrátt fyrir að liðið barðist hetjulega. Það verður erfitt að sjá annaðhvort Val eða ÍBV slá Haukavélina úr leik. 

Þrátt fyrir tap í einvíginu á Stjarnan og Patrekur Jóhannesson mikið hrós skilið. Hann náði miklu úr leikmannahópi sínum og hefði með smá heppni getað farið alla leið í úrslit. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Haukar 29:32 Stjarnan opna loka
60. mín. Björgvin Páll Gústavsson (Haukar) varði skot Stjarnan heldur boltanum. 50 sekúndur eftir og þetta er nánast í höfn hjá Haukum.
mbl.is