ÍBV kemur alltaf til baka

Dagur Arnarsson í baráttunni í leiknum í kvöld.
Dagur Arnarsson í baráttunni í leiknum í kvöld. Eggert Jóhannesson

Dagur Arnarsson, leikstjórnandi ÍBV, var ánægður með frammistöðu sinna manna í 29:27 sigri liðsins í síðari leik þess gegn Val í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í Origo-höllinni í kvöld, en sýtti það að síðasta sókn Eyjamanna hafi farið forgörðum.

„Þetta voru náttúrlega bara tvö hörkulið að mætast og báðum liðum langaði augljóslega mjög mikið að fara alla leið. Það var einhver skjálfti í okkur í byrjun og við klikkum á einhverjum fjórum hraðaupphlaupum í upphafi leiks, sem er mjög dýrt á svona augnabliki.

En eins og ÍBV gerir alltaf og með þessa geggjuðu stemningu með sér þá komum við alltaf til baka og höfðum alltaf trú á því. Það hefði verið ótrúlega ljúft að ná að klára síðustu sóknina með marki,“ sagði Dagur í samtali við mbl.is eftir leik.

Með marki í lokasókninni hefðu Eyjamenn komist áfram á fleiri skoruðum útivallarmörkum. Spurður hvað hafi farið úrskeiðis þar sagði hann: „Við settum upp í kerfi sem við ætluðum okkur að skora úr. Þeir gerðu bara vel og lásu það og komust inn í boltann.

Hann Einar [Þorsteinn Ólafsson] gerir þetta ógeðslega vel og hann hefur gert þetta áður í vetur á móti okkur. Hann má bara eiga það sem hann er góður í og gerði þetta mjög vel,“ en Einar Þorsteinn stal þá boltanum af Degi.

Bæði ánægður og óánægður

Dagur sagði Eyjamenn nokkuð sátta við tímabilið, sem lauk í kvöld, enda hafi það verið upp og ofan. „Við lendum í sjöunda sæti í deild, sem ÍBV stendur ekki fyrir. Við viljum meira og ætluðum okkur hærra og stærri hluti.

Við vissum það samt alltaf og höfðum það bakvið eyrað að við færum í úrslitakeppnina 100 prósent með alla heila og ætluðum okkur langt. Ég er ánægður með það að vera einu marki frá því að fara í úrslitaleik en ég er ekki ánægður með það að lenda í sjöunda sæti í deildinni, þannig að þetta er svona bæði og.“

Þrátt fyrir að missa tvo lykilmenn í sumar fá Eyjamenn gífurlegan liðstyrk á móti þegar Rúnar Kárason, fyrrverandi landsliðsmaður og atvinnumaður til margra ára, gengur til liðs við félagið. Dagur sagði því ekkert hafa breyst þegar kæmi að markmiðum ÍBV; að gera betur á næsta tímabili.

„Við fáum sterkan leikmann í Rúnari [Kárasyni]. Við missum svo að sjálfsögðu tvo frábæra leikmenn. Við missum Hákon [Daða Styrmisson] til Gummersbach og Fannar [Þór Friðgeirsson] er að hætta, sem er náttúrlega mikill missir enda algjör toppmaður og frábært eintak.

Það er missir af þeim báðum. En ÍBV ætlar sér alltaf stóra hluti og við komum flottir til baka og ætlum okkur að gera betur á næsta ári,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert