Aron og félagar mæta tilvonandi liði hans í úrslitum

Aron Pálmarsson var ekki í leikmannahópi Barcelona í dag.
Aron Pálmarsson var ekki í leikmannahópi Barcelona í dag. Ljósmynd/Barcelona

Barcelona tryggði sér í dag sæti í úrslitum Meistaradeildar Evrópu með góðum 31:26 sigri gegn Nantes í undanúrslitunum í Köln og mætir þar Álaborg, sem Aron Pálmarsson gengur til liðs við frá Barcelona í sumar.

Aron var ekki í leikmannahópi Barcelona í dag en gæti spilað gegn tilvonandi liðsfélögum sínum í úrslitaleiknum í Köln í Þýskalandi á morgun.

Báðir undanúrsllitaleikirnir fóru fram þar í borg þar sem Álaborg sló fyrr í dag franska stórliðið París Saint-Germain út á magnaðan hátt.

Frönsku liðin PSG og Nantes spila því um þriðja sætið á morgun, áður en úrslitaleikur Barcelona og Álaborgar fer fram síðar um daginn. Leikurinn um þriðja sætið fer fram klukkan 13.15 og úrslitaleikurinn klukkan 16.

mbl.is