Sveinbjörn með stórleik í Íslendingaslag

Sveinbjörn Pétursson, markvörður Aue, í leik með Stjörnunni á síðasta …
Sveinbjörn Pétursson, markvörður Aue, í leik með Stjörnunni á síðasta tímabili. mbl.is/Þórir Tryggvason

Sveinbjörn Pétursson fór á kostum í marki Aue þegar liðið vann góðan 29:26 sigur gegn Gummersbach í Íslendingaslag í þýsku B-deildinni í handknattleik karla í dag. Þá reyndist Arnar Birkir Hálfdánarson Aue drjúgur bæði í vörn og sókn.

Sveinbjörn varði 14 af 29 skotum sem hann fékk á sig, sem gerir rúmlega 48 prósent markvörslu.

Arnar Birkir skoraði svo þrjú mörk og lagði upp önnur fimm. Þá blokkaði hann þrjú skot í vörninni.

Í liði Gummersbach skoraði Elliði Snær Viðarsson tvö mörk og stal einum bolta í vörninni.

Með sigrinum fer Aue upp í fjórða sæti þýsku B-deildarinnar á meðan Gummersbach er áfram í því þriðja.

Efstu tvö liðin fara upp í þýsku 1. deildina en tap Gummersbach þýðir að líkurnar á því að liðið komist upp í deild þeirra bestu fara þverrandi.

Rúnar Sigtryggsson er bráðabirgðaþjálfari Aue og Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert