Bjarki markahæstur í sigri gegn botnliðinu

Bjarki Már Elísson heldur áfram að raða inn mörkum í …
Bjarki Már Elísson heldur áfram að raða inn mörkum í Þýskalandi. AFP

Hornamaðurinn Bjarki Már Elísson hélt uppteknum hætti og var jafnmarkahæstur í 27:23 sigri Lemgo gegn botnliði Coburg í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla í dag.

Fjórir leikmenn skoruðu sex mörk í leiknum í dag, Bjarki Már þeirra á meðal. Samherji hans Lukas gerði einnig sex mörk.

Pontus Zetterman og Stepan Zeman skoruðu sex mörk fyrir Coburg.

Lemgo siglir áfram lygnan sjó í þýsku 1. deildinni og er í 9. sæti þegar fjórum umferðum er ólokið. Coburg er hins vegar fyrir nokkuð löngu fallið í þýsku B-deildina.

Þá vann Rhein-Neckar Löwen öruggan 31:22 gegn lærisveinum Guðmundar Guðmundssonar í Íslendingaslag.

Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark, gaf eina stoðsendingu og stal einum bolta í liði Löwen og Arnar Freyr Arnarsson gaf eina stoðsendingu og stal einum bolta í liði Melsungen.

Ljónin í Löwen eru í fjórða sæti þýsku 1. deildarinnar og Melsungen er í sjötta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert