Eyjamaðurinn tekur við Selfyssingum

Svavar Vignisson og Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss.
Svavar Vignisson og Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss. Ljósmynd/Selfoss

Eyjamaðurinn Svavar Vignisson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Selfoss í handknattleik. Rúnar Hjálmarsson verður honum til aðstoðar eins og hann hefur verið hjá liðinu undanfarin ár.

Svavar er 48 ára gamall en hann var leikmaður ÍBV á tímabilinu 1990 til 2006 og þjálfaði svo meistaraflokk karla í Vestmannaeyjum árin 2008 til 2010. Þá stýrði hann kvennaliði ÍBV frá 2010 til 2015.

„Ég er mjög spenntur að taka þjálfaraskóna af hillunni og vinna með faglegu teymi á Selfossi.  Selfoss hefur sýnt að þau kunna að búa til frábært handboltafólk bæði karla- og kvennamegin og vonandi tekst okkur teyminu að byggja á því góða starfi sem verið hefur á Selfossi,“ er haft eftir Svavari í fréttatilkynningu frá handknattleiksdeild Selfoss.

mbl.is