„Mér fannst við vera flottir“

Anton Rúnarsson sækir að vörn Hauka í leiknum í kvöld …
Anton Rúnarsson sækir að vörn Hauka í leiknum í kvöld og Geir Guðmundsson reynir að stöðva hann. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er bara fyrri hálfleikur og það er nóg eftir,“ sagði Anton Rúnarsson, markahæsti leikmaður Vals, í samtali við mbl.is að loknum fyrri úrslitaleik Vals og Hauka á Íslandsmótinu í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld. 

Valur hafði betur 32:29 en samanlögð úrslit í leikjunum tveimur skera úr um hvort liðið verður Íslandsmeistari.

„Við þurfum að halda áfram og margt sem við þurfum að laga og gera betur fyrir föstudaginn. Þegar komið er í úrslitaeinvígi ganga sumir hlutir upp og aðrir ekki. Það vilja að sjálfsögðu allir vinna og við stefnum á sigur. Mér fannst við vera flottir í kvöld þótt við getum gert margt betur.“

Leikurinn í kvöld var mjög hraður en Anton vildi ekki spá neinu um hvort hið sama yrði uppi á teningnum í síðari leiknum. „Það er erfitt að segja en það er alveg rétt hjá þér að þetta var mjög hraður og að ég held mjög skemmtilegur leikur. Ég reikna með að gaman hafi verið að horfa á leikinn. Við höldum okkur við okkar áherslur og gefum allt í þetta á föstudaginn.“

Anton Rúnarsson í klóm Heimis Óla Heimissonar í kvöld en …
Anton Rúnarsson í klóm Heimis Óla Heimissonar í kvöld en fyrir aftan má sjá Atla Má Báruson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvort hann hafi verið ánægðari með vörnina eða sóknina hjá Val að þessu sinni sagði Anton að liðið hafi leikið vel í báðum tilfellum. „Mér fannst við flottir bæði í vörn og sókn í fyrri hálfleik. Við duttum aðeins of lengi niður í seinni sem er eitthvað sem við þurfum að skoða. Það getur kannski talist eðlilegt gegn liði eins og Haukum. Það er barist á báðum endum vallarins og við þurfum að minnka þessa leiðinlegu kafla. Það er einn leikur eftir og við ætlum okkur að vinna hann,“ sagði Anton Rúnarsson við mbl.is. 

mbl.is