Valsmenn fara með forskot á Ásvelli

Valsmenn eru með þriggja marka forskot þegar úrslitarimman á Íslandsmóti karla í handknattleik er hálfnuð. Valur vann Hauka í fyrri úrslitaleiknum í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld 32:29. 

Liðin mætast aftur á föstudagskvöldið á Ásvöllum í Hafnarfirði og þra ráðast úrslitin. 

Valur var með fimm marka forskot að loknum fyrri hálfleik 19:14. Haukar höfðu byrjað betur og komist í 3:1 en þá kom 6:1 kafli hjá Val. Forskot Vals varð mest sex mörk 13:7 í leiknum en Valsmenn léku afskaplega vel í fyrri hálfleik. 

Haukar náðu smám saman að saxa á forskot Vals í síðari hálfleik og tókst að minnka muninn niður í eitt mark þegar tæpar tíu mínútur voru eftir. Valsmenn náðu þá aftur að gefa í og náðu fjögurra marka forskoti. Geir Guðmundsson skoraði síðasta mark leiksins fyrir Hauka og minnkaði þá muninn niður í þrjú mörk. 

Hvert mark gæti skipt máli þar sem fyrirkomulag úrslitakeppninnar er með öðru sniði þetta árið. Liðin leika tvo leiki og samanlögð úrslit gilda í stað þess að vinna þurfi þrjá leiki til að verða meistari. 

Leikurinn var mjög hraður og verður áhugavert að sjá hvort sama keyrsla verði upp á teningnum í síðari leiknum. 

Haukar urðu deildarmeistarar í vetur og sigruðu síðan Aftureldingu í átta liða úrslitum og Stjörnuna í undanúrslitum. Valsmenn enduðu í þriðja sæti deildarinnar og unnu KA í átta liða úrslitum og ÍBV í undanúrslitum.

Valur 32:29 Haukar opna loka
60. mín. Geir Guðmundsson (Haukar) skoraði mark Lyfti sér upp fyrir utan.
mbl.is