Vann þriðja meistaratitilinn í röð

Arnór Atlason hefur átt velgengni að fagna eftir að hann …
Arnór Atlason hefur átt velgengni að fagna eftir að hann tók við starfi aðstoðarþjálfara Álaborgarliðsins. Ljósmynd/Foto Olimpik

Arnór Atlason fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik vann í kvöld sinn þriðja meistaratitil í röð með Aalborg í Danmörku þegar Álaborgar liðið vann Bjerringbro-Silkeborg, 32:27, í oddaleik um titilinn.

Arnór tók við starfi aðstoðarþjálfara liðsins árið 2018, eftir að hafa lokið þar ferlinum sem leikmaður næstu tvö tímabil á undan, og liðið hefur nú unnið meistaratitilinn öll þrjú árin frá þeim tíma.

Staðan í einvíginu var 1:1 fyrir úrslitaleik kvöldsins. Felix Claar skoraði 9 mörk fyrir Aalborg og Sebastian Barthold 6. Liðið fær góðan liðsauka í sumar þegar Aron Pálmarsson kemur til félagsins frá Barcelona, og enn frekari ári síðar þegar Mikkel Hansen er væntanlegur til Álaborgar frá París SG.

mbl.is