Ætluðum að rúlla yfir þá og gerðum það

Valsmenn fagna vel og innilega.
Valsmenn fagna vel og innilega. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er geggjað og stuðningurinn var rosalegur,“ sagði sigurreifur Róbert Aron Hostert í samtali við mbl.is. Róbert varð Íslandsmeistari í handbolta í fjórða sinn í kvöld er Valur vann sannfærandi samanlagðan sjö marka sigur á Haukum í úrslitum. 

„Það er ótrúlega gaman að skila loksins titli hérna. Þá er ég búinn að skila stórum titli í öllum þeim liðum sem ég hef verið í. Þetta er fjórði Íslandsmeistaratitilinn, sem er æðislegt. Liðið og allt í kringum það og spennustigið var akkúrat eins og það átti að vera. Við vissum að við værum langbesta liðið,“ sagði Róbert kátur. 

Haukar unnu deildarmeistaratitilinn með sannfærandi hætti á meðan Valsmenn töpuðu átta leikjum í deildarkeppninni. Valsmenn unnu hins vegar sannfærandi sigur í úrslitaeinvíginu. 

„Þetta er búið að vera upp og niður og svo byrjar bara ný keppni. Við gengum á lagið og vorum loksins með alla heila. Þú verður líka að læra af þessum tapleikjum. Ég held það sé enginn að pæla í því núna að við töpuðum á móti Þór í deildinni, nema kannski sérfræðingarnir.

Öll umfjöllun kitlar okkur, t.d. að við séum með dýrasta liðið og bla bla. Við vorum ógeðslega massífir. Við ætluðum ekki að halda einhverju þriggja marka forskoti. Við ætluðum að rúlla yfir þá, sem við gerðum. Þeir áttu ekki séns. Ég sat sallarólegur á bekknum. Allir sem komu inn á gerðu vel,“ sagði Róbert Aron.

mbl.is