Viggó markahæstur í naumu tapi

Stórleikur Viggós Kristjánssonar dugði ekki til í kvöld.
Stórleikur Viggós Kristjánssonar dugði ekki til í kvöld. AFP

Viggó Kristjánsson var markahæstur í liði Stuttgart þegar liðið laut í lægra haldi, 25:27, á heimavelli gegn Erlangen í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla í kvöld.

Viggó fór fyrir sínum mönnum og skoraði sjö mörk ásamt því að gefa tvær stoðsendingar og blokka eitt skot í vörninni.

Það dugði þó ekki til þar sem Erlangen tryggði endanlega sæti sitt í þýsku 1. deildinni á meðan Stuttgart getur enn þá fallið niður í B-deildina.

Stuttgart er í 14. sæti, fimm stigum fyrir ofan Ludwigshafen í 17. og síðasta fallsætinu, en lið Viggós er búið að spila einum leik meira. Erlangen er eftir sigurinn í kvöld þremur stigum á undan Stuttgart í 13. sæti.

Fleiri leikir voru á dagskrá í þýsku 1. deildinni í kvöld.

Füchse Berlín vann öruggan 36:30 sigur gegn Balingen, þar sem Oddur Gretarsson skoraði eitt mark fyrir síðarnefnda liðið.

Balingen er í 15. sæti, þremur stigum fyrir ofan Ludwigshafen en líkt og Stuttgart búið að spila einum leik meira. Liðið er þar með enn í hættu á að falla.

mbl.is