Frá Hlíðarenda til Gummersbach

Martin Nagy er á leið til Þýskalands.
Martin Nagy er á leið til Þýskalands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ungverski handknattleiksmarkvörðurinn Martin Nagy er á leið til þýska B-deildarfélagsins Gummersbach. Það er Vísir sem greinir frá þessu.

Til stóð að Nagy myndi leika með Valsliðinu í úrvalsdeild karla á næstu leiktíð og á að hafa gert munnlegt samkomulag við Valsmenn þess efnis.

Hann samþykkti hins vegar samningstilboð Gummersbach fyrr í dag að því er fram kemur í frétt Vísis en Guðjón Valur Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íslands, er þjálfari liðsins.

Þá leikur Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson með liðinu og hornamaðurinn Hákon Daði Styrmisson hefur einnig samið við félagið um að leika með því á næstu leiktíð.

Björgvin Páll Gústafsson, landsliðsmarkvörður Íslands, mun ganga til liðs við Valsmenn í sumar en Nagy lék frábærlega fyrir Valsmenn seinni hluta vetur og var lykilmaður í úrslitakeppni Íslandsmótsins þegar Valur varð Íslandsmeistari í 23. sinn.

Gummersbach er í þriðja sæti þýsku B-deildarinnar með 53 stig og í harðri baráttu um að fara upp um deild þegar einni umferð er ólokið en Hamburg er í efsta sætinu með 56 stig og N-Lübbecke er í öðru sætinu með 54 stig.

mbl.is