Ólafur kominn til Montpellier

Ólafur Andrés Guðmundsson yfirgefur Kristianstad og heldur til Montpellier.
Ólafur Andrés Guðmundsson yfirgefur Kristianstad og heldur til Montpellier. Ljósmynd/Kristianstad

Handknattleiksmaðurinn Ólafur Andrés Guðmundsson er búinn að semja við franska stórliðið Montpellier sem leikur í efstu deild þar í landi. Hann yfirgefur þar með sænska úrvalsdeildarfélagið Kristianstad eftir tæplega áratugar dvöl.  

Ólafur gekk fyrst til liðs við Kristianstad sumarið 2012 áður en hann fór til Hannover í þýsku 1. deildinni sumarið 2014. Stoppið var þó stutt í Þýskalandi og fór hann aftur til Kristianstad í nóvember árið 2015 og hefur verið þar síðan.

Hann hefur orðið sænskur meistari í þrígang og er á heimasíðu Kristianstad sagður einn besti leikmaður í sögu félagsins. Tölfræði hans með félaginu rennir sannarlega stoðum undir það.

Ólafur er einn leikjahæsti og markahæsti leikmaður í sögu Kristianstad og markahæstur allra hjá félaginu í Meistaradeild Evrópu.

Í samtali við heimasíðu Kristianstad sagði Ólafur um vistaskiptin:

„Þetta hefur gengið ótrúlega hratt fyrir sig og var mjög erfið ákvörðun. Á hverju einasta tímabili sem ég hef leikið með Kristianstad hef ég fengið tilboð frá öðrum félögum og hafnað þeim öllum, sem er eitthvað sem ég hef aldrei séð eftir. En að þessu sinni var erfitt að hafna tilboðinu.“

Montpellier lenti í öðru sæti frönsku 1. deildarinnar á síðasta tímabili og hefur unnið Meistaradeild Evrópu í tvígang, síðast árið 2018.

„Montpellier er stórt félag, er með góðan þjálfara sem hefur verið lengi hjá félaginu, hefur unnið Meistaradeildina og er eitt af 10 bestu liðum heims.

Þetta er draumur hvað handboltann varðar, ný áskorun bíður og ég þarf að venjast öðru hlutverki hjá félaginu samanborið við það sem ég hef haft hjá Kristianstad. Þetta verður nýtt umhverfi og nýr kúltúr, sem verður krefjandi en mjög spennandi,“ sagði Ólafur einnig og þakkaði að lokum öllum hjá Kristianstad fyrir ómetanlegan tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert