Gjörsigruðu Kósóvó og leika um fimmta sætið

Elín Rósa Magnúsdóttir var ein af markahæstu leikmönnum íslenska liðsins …
Elín Rósa Magnúsdóttir var ein af markahæstu leikmönnum íslenska liðsins í morgun. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik skipað leikmönnum 19 ára og yngri vann sannkallaðan stórsigur, 37:23, í B-deild Evrópumeistaramótsins í morgun. Með sigrinum tryggði liðið sér leik um fimmta sætið á mótinu.

Óhætt er að segja að sigurinn hafi aldrei verið í hættu því íslenska liðið gaf tóninn strax í upphafi er það komst í 5:0 forystu. Staðan í hálfleik var 16:10.

Í þeim síðari hertu íslensku stúlkurnar enn frekar tökin og kafsigldu þær kósóvósku og unnu að lokum gífurlega öruggan fjórtán marka sigur.

Íslenska liðið skipti mörkunum systurlega á milli sín. Elín Rósa Magnúsdóttir, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir og Sara Katrín Gunnarsdóttir voru markahæstar með fimm mörk hver og þær Ída Margrét Stefánsdóttir, Katrín Helga Sigurbergsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir fylgdu í humátt með fjögur mörk hver.

Markahæst í liði Kósóvó og í leiknum var Elisa Mulaj, sem fór á kostum og skoraði 12 mörk, meira en helming marka liðsins.

Síðar í dag kemur í ljós hvaða liði Ísland mætir í leiknum um fimmta sætið á morgun, annað hvort Norður-Makedóníu eða Finnlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert