Undirbúningur lærisveina Arons endaði á góðum nótum

Aron Kristjánsson, þjálfari Barein.
Aron Kristjánsson, þjálfari Barein. AFP

Karlalandslið Bareins í handknattleik, sem Aron Kristjánsson þjálfar, vann góðan 32:27 sigur gegn Argentínu í síðasta vináttulandsleik liðsins fyrir Ólympíuleikana í Tókýó.

Staðan var 14:13, Barein í vil, í hálfleik en í þeim síðari sigldi liðið fram úr því argentínska og hafði að lokum öruggan fimm marka sigur.

Barein hefur leik á Ólympíuleikunum í B-riðlinum um næstu helgi þegar það mætir ógnarsterku liði Svía, sem endaði í öðru sæti á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í janúar síðastliðnum.

Í B-riðlinum eru einnig heimsmeistarar Danmerkur, heimamenn í Japan, Portúgal og Egyptaland og því ljóst að erfitt verkefni bíður Barein er liðið freistar þess að ná fjórða sætinu í riðlinum, sem gefur sæti í átta liða úrslitum leikanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert