Fara til Kýpur, Tékklands og Hvíta-Rússlands

FH og Haukar fara bæði beint í 2. umferð keppninnar …
FH og Haukar fara bæði beint í 2. umferð keppninnar og leika gegn liðum frá Hvíta-Rússlandi og Kýpur. Kristinn Magnússon

Íslensku karlaliðin þrjú sem taka þátt í Evrópubikarkeppni EHF í handknattleik á komandi keppnistímabili, Selfoss, Haukar og FH, drógust í dag gegn mótherjum frá Tékklandi, Kýpur og Hvíta-Rússlandi.

Selfyssingar hefja keppni í 1. umferð og leika þar við Koprivnice frá Tékklandi. Sigurvegarinn í þeirri viðureign mætir Jeruzalem Ormoz frá Slóveníu í 2. umferð. Selfoss var í efri styrkleikaflokki í 1. umferð en í neðri flokki í 2. umferð.

Haukar hefja keppni í 2. umferð og leika þar við Parnassos Strovolu frá Kýpur. Þeir voru í efri styrkleikaflokki.

FH-ingar hefja keppni í 2. umferð og leika þar við SKA Minsk frá Hvíta-Rússlandi. Þeir voru í neðri styrkleikaflokki.

Fyrsta umferðin er leikin dagana 11. til 19. september en önnur umferð dagana 16.-24. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert