Heims- og ólympíumeistararnir enduðu á sigri

Mikkel Hansen, lykilmaður Dana, fagnar marki á HM í janúar.
Mikkel Hansen, lykilmaður Dana, fagnar marki á HM í janúar. AFP

Danska karlalandsliðið í handknattleik vann góðan 33:28 sigur gegn Frakklandi í síðasta vináttulandsleik beggja liða fyrir Ólympíuleikana, en keppni í handknattleik hefst um helgina.

Danir eru ríkjandi heimsmeistarar og ólympíumeistarar og freista þess að vinna gull á sínum öðrum Ólympíuleikum í röð.

Annar vináttuleikur fór fram fyrr í morgun þar sem Portúgal hafði betur, 31:28, gegn Argentínu.

Danir hefja leik í B-riðlinum gegn heimamönnum í Japan í hádeginu á laugardaginn næstkomandi og Frakkar mæta Argentínu aðfaranótt laugardagsins í A-riðlinum.

Portúgal mætir svo Egyptalandi í B-riðlinum á laugardagsmorguninn. Portúgalska liðið tekur þátt í sínum fyrstu Ólympíuleikum í sögunni.

mbl.is